Flytja tvo ebólu-sýkta til Bandaríkjanna

Smithættan er mikil og fara verður með gát þegar hlúð …
Smithættan er mikil og fara verður með gát þegar hlúð er að sjúklingum með ebóla. AFP

Tveir bandarískir ríkisborgarar sem smitaðir eru af ebólu-veirunni verða fluttir aftur til Bandaríkjanna frá Afríku á næstu dögum.

„Öryggi bandarískra ríkisborgara er okkur efst í huga,“ sagði Marie Harf, talskona innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna þegar hún staðfesti flutninginn. Hún sagði að öryggi sjúklinganna yrði tryggt og að þeir yrðu fluttir með einkaþotu og hafðir í sóttkví þegar til Bandaríkjanna er komið.

Bandaríski læknirinn Kent Brantly og trú­boðinn og hjúkr­un­ar­fræðing­ur­inn Nancy Write­bole eru bæði sýkt veik af veirunni. Þau eru bæði í Líberíu og er ástand þeirra sagt vera alvarlegt en stöðugt. Brantly hefur vakið athygli eftir að hann krafðist þess að Writebole fengi eina skammt­inn sem til er af til­rauna­lyfi gegn sjúk­dómn­um.

Harf neitaði að upplýsa hverjir það væru sem fluttir verða til Bandaríkjanna og ekki er því ljóst hvort það séu Brantly eða Writebole.

Forsvarsmenn Emory háskólasjúkrahússins í suðurhluta Georgíu-fylkis greindu frá því í dag að þeir ættu von á sjúklingi sem sýktur væri af ebólu-veirunni á næstu dögum þar sem hann yrði hafður í sóttkví.

Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in (WHO) hefur sagt að ebólu-far­ald­ur­inn sé að verða stjórn­laus í þeim lönd­um Vest­ur-Afr­íku þar sem hann geis­ar og gæti breiðst út til annarra landa.

WHO seg­ir að í það minnsta 729 hafi lát­ist úr ebólu frá því að far­ald­ur­inn hófst í fe­brú­ar. Yfir 1.300 hafa sýkst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert