Tólf ára skaut heimilislausan mann til bana

AFP

Tólf ára drengur frá Flórída var handtekinn í gær, sakaður um að hafa skotið heimilislausan mann til bana. Sá heimilislausi var skotinn í höfuðið. Lögreglan segir málið mikinn harmleik.

Í frétt AP-fréttastofunnar segir að drengurinn sé grunaður um að hafa skotið 54 ára mann, Thomas Trent að nafni. Upp komst um málið þar sem til drengsins sást á eftirlitsmyndavél. Hann hefur ekki enn verið ákærður. „Þetta er hörmulegt mál,“ segir saksóknarinn sem fer með málið. „Hræðilegt fyrir fórnarlambið en einnig fyrir þetta tólf ára gamla barn.“

Lík Trents fannst í yfirgefnu verslunarhúsnæði þann 28. júní. Á eftirlitsmyndavél sáust tveir ungir menn ganga þar skammt frá. Sex mínútum síðar sáust sömu drengir hlaupa um götuna með stuttbuxur sínar yfir höfðum sínum. 

Hinn drengurinn er sextán ára. Hann er í gæsluvarðhaldi í tengslum við annað mál en sagði til þess yngri og segir hann þann sem skaut Trent.

Systir Trents sagði í samtali við Florida Times-Union að bróðir hennar hafi verið ljúfur og greindur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert