Átta látnir og flóðahætta eftir aurskriðu

Frá Nepal
Frá Nepal AFP

Að minnsta kosti átta eru látnir eftir gríðarmikla aurskriðu norðaustur af Katmandú, höfuðborg Nepal, í nótt. Vatn flæddi inn á vatnsorkuver og hætta er á flóði úr á sem brak eftir skriðuna hefur stíflað.

Um tuttugu heimili lentu undir skriðunni sem að lokum flutti brak og leðju út í Sunkoshi ána að sögn forsætisráðuneytisins. „Við erum að reyna að finna leið til þess að losa um stífluna á öruggan hátt,“ sagði Prakash Adhikari, aðstoðarmaður forsætisráðherra við AFP fréttastofuna.

Slökkva þurfti á Sunkoshi vatnsorkuverinu vegna flóða að sögn forsvarsmanna þess. Óttast er að fleiri orkuver gætu eyðilagst ef vatnsyfirborðið heldur áfram að hækka. Þá hafa margar rafmagnslínur slitnað og fjölmargir eru því án rafmagns.

Stjórnvöld hafa lýst yfir flóðahættu og fyrirskipað hernum að nota sprengiefni við að losa stífluna.

Að sögn talsmanns innanríkisráðuneytisins hafa átta fundist látnir og sextán verið fluttir slasaðir á sjúkrahús. Leit af fólki stendur nú yfir en tuga er enn saknað.

Þá hefur hluta Arniko hraðbrautarinnar, sem tengir Nepal við Tíbet, verið lokað vegna flóðahættunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert