Vopnahlé í molum eftir blóðugan dag

Hlúið að palestínskum börnum á al-Najar spítalanum í Rafah á …
Hlúið að palestínskum börnum á al-Najar spítalanum í Rafah á Gaza þar sem ísraelski herinn gerði harða árás í dag AFP

Þriggja sólarhringja vopnahléið sem hefjast átti á Gaza í morgun er í molum eftir mikið mannfall í dag. Níutíu og einn palestínumenn liggja í valnum og útlit er fyrir að ísraelskur hermaður sé í haldi Hamas-liða.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kallaði eftir því í dag að hermanninum yrði skilyrðislaust sleppt úr haldi en sagði jafnframt að meira þyrfti að gera til þess að hjálpa óbreyttum borgunum á Gaza.

Dómsmálaráðherra Ísrael, Tzipi Livn, sakaði Hamas um að standa á bak við hvarf hermannsins og sagði samtökin munu fá að gjalda fyrir. Hamas sögðu hins vegar fyrr í kvöld að þeir hefðu engar upplýsingar um hinn 23 ára gamla hermann, Hadar Goldin. „Við misstum samband við liðsmenn okkar sem voru á svæðinu þar sem hermaðurinn hvarf og það er mögulegt að liðsmenn okkar ásamt hermanninum séu látnir,“ sagði í tilkynningu frá samtökunum.

Átökin voru hörð í dag og 91 Palestínumenn liggja í valnum og 350 eru særðir. Meðal þeirra eru fimmtán börn á aldrinum þriggja til tólf ára frá sömu fjölskyldu.

Ásakanir ganga fylkinga á milli en Hamas-liðar saka Ísraela um að hafa rofið hið skammvinna vopnahlé en Ísraelar segjast hins vegar hafa verið að svara árásum þeirra. Líkurnar á varanlegu vopnahlé virðast hverfandi eftir daginn.

Að minnsta kosti 1.600 Palestínumenn, flestir þeirra óbreyttir borgarar, og 63 ísraelskir hermenn hafa nú látist í átökunum. 

Særð palestínsk kona leitar aðhlynningar á al-Najar spítalanum í borginni …
Særð palestínsk kona leitar aðhlynningar á al-Najar spítalanum í borginni Rafah á Gaza. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert