Barn lést og 30 manns særðust

Palestínskur maður heldur á særðu barni eftir árásir Ísraelsmanna á …
Palestínskur maður heldur á særðu barni eftir árásir Ísraelsmanna á skóla Sameinuðu þjóðanna í Rafah í gær. AFP

Barn lést og um 30 manns særðust í loftárárás Ísraelshers á flóttamannabúðir á Gaza-svæðinu í morgun, einungis örfáum mínútum eftir að Ísraelsmenn lýstu yfir einhliða vopnahléi.

Samkvæmt AFP-fréttaveitunni féllu sprengjur á Shati-flóttamannabúðirnar sex mínútum eftir að Ísraelsmenn höfðu lýst yfir vopnahléi. Vitni segja að F16-orrustuþota hafi skotið flugskeyti á búðirnar, sem umkringdar eru háhýsum, og jafnað þær við jörðu.

Björgunarstarf hefur reynst vandasamt vegna slæms aðgengis að svæðinu, en erfitt er að flytja björgunarbúnað á milli háhýsanna að flóttamannabúðunum vegna þröngra gatna þar á milli.

Ísraelsmenn tilkynntu fyrr í morgun einhliða vopnahlé í sjö klukkustundir. Hamas-samtökin segjast ekki munu virða vopnahléið og vöruðu íbúa Gaza-svæðisins við því að fara út úr húsi vegna átakanna sem yfir vofa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert