„Ef við hefðum leyft þeim að lifa...“

Bróðir númer tvö, Nuon Chea, við réttarhöldin.
Bróðir númer tvö, Nuon Chea, við réttarhöldin. AFP

Helsti hugmyndasmiður Rauðu kmeranna, Nuon Chea, er hrokafullur, ógnandi og umfram allt iðrunarlaus. Hann er talinn arkitekt drápsvélarinnar sem fór í gang er kmerarnir tóku völdin í Kambódíu á áttunda áratugnum. Afleiðingarnar voru þær að um tvær milljónir manna í landinu létu lífið, ýmist vegna hungurs eða vinnuþrælkunar. Þá voru fjölmargir „óvinir stjórnarinnar“ teknir af lífi. Chea og Khieu Samphan, annar yfirmaður kmeranna, voru í dag dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi gegn mannkyninu. Meira en þrír áratugir eru liðnir frá því að þessi grimmdarverk voru framin.

Chea var hægri hönd ógnvaldsins Pol Pots. Hann er orðinn 88 ára og er heilsuveill. Hann er þekktur sem Bróðir tvö. Chea var með sólgleraugu, sem eru nokkurs konar vörumerki hans, í réttarsalnum í dag.

Hann var handtekinn í september árið 2007 en hefur alla tíð neitað þátttöku í morðunum. Hann segist hafa einbeitt sér að menntamálum í stjórn Rauðu kmeranna.

Meðan á réttarhöldunum stóð yfirgaf Chea ítrekað réttarsalinn í mótmælaskyni. Með þessu háttalagi reitti hann ættingja fórnarlamba Rauðu kmeranna til mikillar reiði.

Í yfirlýsingu sinni við upphaf réttarhaldanna í október í fyrra sagðist hann finna mikið til með þeim sem þjáðust á meðan Rauðu kmerarnir voru við völd. Hann segist þó ekki bera nokkra ábyrgð, aðeins „svikulir“ undirmenn hans. 

Hann segist hafa alið undirmenn sína upp í kærleika og virðingu. 

„Ég fyrirskipaði þeim aldrei að fara illa með eða drepa fólk, að svelta það eða fremja þjóðarmorð,“ bætti hann við.

Nuon Chea var ákærður fyrir að spila mikilvægt hlutverk í stjórninni sem með aðgerðum sínum varð til þess að tvær milljónir manna létu lífið á árunum 1975–79.

Hann og samstarfsmaður hans, Khieu Samphan, voru „einræðisherrar sem stjórnuðu Kambódíumönnum með hrottafengnum hætti og ógnunum,“ sagði saksóknarinn, William Smith. „Blóð var látið flæða fyrir valdið,“ sagði hann. 

Nuon Chea fæddist árið 1926 og fékk nafnið Long Bunruot. Foreldrar hans voru auðugir kínverskir kmerar. Hann nam lögfræði í Bangkok í Taílandi og gekk þá í Kommúnistaflokkinn.

Í apríl árið 1975 komust svo kommúnistar til valda í Kambódíu. Þá var Chea orðinn næstæðsti leiðtogi Rauðu kmeranna, sem einnig voru þekktir sem Kommúnistaflokkur Kampuchea (CPK).

Enn er ekki víst hversu marga Rauðu kmerarnir tóku beinlínis af lífi en ljóst er að fólk var kerfisbundið líflátið undir stjórn Nuons Chea. 

Chea var frjáls ferða sinna og bjó í Kambódíu. Hann var handtekinn þar árið 2007.

Lögmenn hans reyndu að fá réttarhöldunum frestað þar sem Chea var heilsuveill. Undir það tóku dómararnir ekki. 

Árið 1998, er völd Rauðu kmeranna fjöruðu út, fór Chea að styðja nýja ríkisstjórn landsins. Hann flutti að landamærunum að Taílandi þar sem hann var frjáls ferða sinna allt þar til hann var handtekinn. 

Chen neitar því ekki að grimmdarverk hafi verið framin í stjórnartíð Rauðu kmeranna. Hann bara kannast ekkert við að hafa átt nokkurn þátt í  þeim. Þá neitar hann því að hafa verið í aðstöðu til að stöðva hörmungarnar. 

Kvikmyndagerðarmaðurinn Thet Sambath frumsýndi árið 2009 heimildarmynd sína, Óvinir fólksins, Enemies of the People. Í myndinni er fjallað um ógnarstjórn kmeranna.

Í myndinni sést hvar Chea situr fyrir utan heimili sitt að ræða við Sambath. Í samtalinu viðurkennir hann að Rauðu kmerarnir hafi drepið „svikara“ sem ekki hafi verið hægt að „endurmennta“ eða „leiðrétta“.

Hann sagði: „Þetta fólk var flokkað sem glæpamenn. Það var drepið og eyðilagt. Ef við hefðum leyft þeim að lifa hefði orðið valdarán. Þetta voru óvinir fólksins.“

Soum Rithy brast í grát er dómur féll í máli …
Soum Rithy brast í grát er dómur féll í máli kmeranna tveggja. Rithy lifði af fangelsisvist á valdatíma Rauðu kmeranna í Kambódíu. AFP
Talið er að tvær milljónir manna hafa látist undir ógnarstjórn …
Talið er að tvær milljónir manna hafa látist undir ógnarstjórn Rauðu kmeranna. AFP
Safn um voðaverk kmeranna í Phnom Penh.
Safn um voðaverk kmeranna í Phnom Penh. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert