Áfrýjar dómi um lög gegn samkynhneigðum

AFP

Ríkisakssóknari í Úganda hefur áfrýjað til hæstaréttar þeim dómi stjórnlagadómstóls landsins að ógilda beri umdeild lög um hertar refsingar gegn samkynhneigðum. Talsmaður ríkissaksóknara staðfesti þetta við fjölmiðla fyrr í dag.

Lögin voru samþykkt á þinginu í desembermánuði í fyrra og staðfest af forseta landsins í upphafi árs. Samkvæmt þeim áttu samkynhneigðir yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi fyrir ítrekuð brot og þá var allur áróður fyrir samkynhneigð bannaður.

Lög gegn sam­kyn­hneigð karla hafa lengi gilt í Úganda. Með nýju lög­un­um voru refs­ing­arn­ar hins veg­ar hert­ar og í fyrsta sinn var einnig fjallað um lesb­í­ur. Þá voru borg­ar­ar skyldaðir til að segja til sam­kyn­hneigðra.

Í byrjun mánaðarins komst stjórnlagadómstóll landsins að þeirri niðurstöðu að lögin gengu gegn stjórnarskrá landsins. Frumvarpið hafi ekki fengið rétta meðferð á þinginu þegar það var samþykkt. Aðeins örfáir þingmenn hafi verið viðstaddir kosninguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert