Átökin á Gaza magnast á ný

Ísraelskir skriðdrekar á landamærum Ísrael og Palestínu.
Ísraelskir skriðdrekar á landamærum Ísrael og Palestínu. AFP

Herþotur Ísraelshers vörpuðu sprengjum yfir Gaza-svæðið í dag, en fimm Palestínumenn hafa látist í árásunum. Viðræður um áframhaldandi vopnahlé hafa enn engan árangur borið.

Samkvæmt heimildum úr innanríkisráðuneyti Palestínu vörpuðu Ísraelsmenn 21 sprengju laust eftir miðnætti. Þrjár moskur eyðilögðust, ein í Zeitoun hverfinu, önnur í Jabaliya hverfinu á norðurhluta strandarinnar og ein í Nuseirat í miðborg Gaza. AFP fréttaveitan segir að tvær þeirra hafi verið tengdar Hamas-samtökunum.

Átökin, sem hófust þann 8. júlí, hafa stigmagnast að nýju eftir að viðræður um vopnahlé runnu í sandinn á föstudagsmorgun. Palestínskir skæruliðar skutu eldflaugum yfir landamærin til Ísrael í morgun að sögn ísraelska hersins, en engum varð meint af.

Talið er að um 1.898 Palestínumenn og 67 Ísraelsmenn hafi látist frá því átökin hófust. Sameinuðu þjóðirnar telja að um 1.354 þeirra Palestínumanna sem látnir eru séu almennir borgarar og 447 séu börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert