4 ára í skóginum í tvær vikur

Karina Chikitova er björgunarmennirnir færðu henni ávexti.
Karina Chikitova er björgunarmennirnir færðu henni ávexti. Skjáskot af Sky

Tæplega fjögurra ára stúlka er nú að jafna sig á sjúkrahúsi eftir að hafa verið týnd í tæpar tvær vikur í skógi í Síberíu í Rússlandi. Í skóginum eru ýmsar hættur, m.a. birnir. Stúlkan litla hafði þó hvolpinn sinn með sér til að vernda sig.

Karina Chikitova var orðin köld og hrakin er hún fannst um helgina. Hún var ellefu daga í skóginum. Á þessum árstíma er oft næturfrost í skógum Síberíu. Stúlkan hafði ekki annað en ber til að borða og segja björgunarmenn það kraftaverki líkast að hún hafi lifað skógardvölina af.

Stúlkan hafði farið frá smáu þorpi sem hún býr í ásamt hundinum sínum þann 29. júlí. Hún ætlaði að fara til föður síns sem bjó í næsta nágrenni.

En faðir hennar hafði farið að berjast við skógarelda og svo virðist sem stúlkan hafi þá gengið út í skóg til að reyna að finna hann. 

Ekkert farsímasamband er á þessu svæði sem er dreifbýlt og aðallega byggt Jakútum. Þar lifa þeir á veiðum. Móðir hennar gat því ekki fengið upplýsingar um hvort stúlkan hefði skilað sér til föður síns. Því kom ekki í ljós fyrr en fjórum dögum eftir að hún fór að heiman að hún væri týnd. 

Umfangsmikil leit hófst þegar í stað en þó liðu margir dagar áður en Karina fannst. Það var hvolpurinn hennar sem leiddi björgunarmenn á sporið. Hann hafði snúið aftur til þorpsins, þar sem aðeins átta manns búa. Björgunarmenn gátu því látið leitarhunda rekja slóð hvolpsins.

„Við vorum vissir um að hvolpurinn var hjá stelpunni allan tímann, að hlýja henni á nóttunni og að reka burt villidýr,“ segir Afanasiy Nikolayev, sem tók þátt í leitinni.

Þegar hvolpurinn snéri svo til baka urðu björgunarmennirnir vondaufir og héldu að Karina litla væri látin. Næturfrost hafði verið á svæðinu í nokkra daga.

Spor eftir Karinu fundust svo tveimur dögum eftir að hvolpurinn skilaði sér í þorpið. Hún fannst svo liggjandi í grasi um sex kílómetrum norður af þorpinu hennar. Hún var hrædd, en á lífi.

Hún var búin að týna skónum sínum og gekk berfædd um svæðið. Hún hafði lést mikið.

Á sjónvarpsmyndum sem m.a. hafa birst í fjölmiðlum í Rússlandi, má sjá stúlkuna stóreyga að borða ávexti sem björgunarmennirnir færðu henni. Hún var svo sett upp í þyrlu og flogið með hana á sjúkrahús.

Stúlkan segist hafa borðað ber og drukkið vatn úr ánni.

Sakha-svæðið í norðausturhluta Rússland er eitt það afskekktasta og dreifbýlasta í landinu. Þar verða árnar ískaldar, sífreri er í jörðu og dýralífið fjölskrúðugt, m.a. má þar finna mikið af hreindýrum og björnum.

Karina litla er á góðum batavegi.

 Sjá má myndir af björguninni og af stúlkunni á sjúkrahúsi á vef Siberian Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert