Blóðugur dagur í Sýrlandi

Stór svæði borgarinnar Aleppo eru rústir einar eftir stöðug átök.
Stór svæði borgarinnar Aleppo eru rústir einar eftir stöðug átök. AFP

Að minnsta kosti 14 manns létu lífið í dag þegar bílasprengja sprakk fyrir framan mosku í héraðinu Daraa í Suður-Sýrlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá sýrlenskum mannréttindasamtökum eru fjölmargir alvarlega slasaðir eftir sprenginguna og því líklegt að fleiri muni látast.

Meðal þeirra sem létust voru kona og barn.

Þetta var þó ekki eina árásin í Sýrlandi í dag, en talið er að minnsta kosti tíu manns hafi látið lífið þegar að þyrla stjórnarhersins varpaði sprengjum í Aleppo. Árásinni var beint að hverfinu Bab al-Nairab og Salahin. 

Norðan við borgina hafa íslamskir skæruliðar úr röðum Ríkis íslams bætt við sig liði og hernumið þorpið Baghaydin, sem er skammt frá landamærum Sýrlands og Tyrklands. 

Á miðvikudaginn fönguðu skæruliðar Ríkis íslams átta þorp á svæðinu á milli Aleppo og landamæranna úr höndum uppreisnamanna. 

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum hafa bardagar í kringum og í Aleppo undanfarið hafa orðið til þess að íbúar borgarinnar búa við hræðilegar aðstæður. Unnið er að því að koma lyfjum og búnaði á svæðið, en hluti þess er undir stjórn stjórnvalda en annar hluti undir stjórn uppreisnarmanna. 

Meira en 170 þúsund manns hafa dáið í átökum í Sýrlandi síðan í mars 2011. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert