Merkel hringdi í Pútín

Angela Merkel og Vladimir Pútín ræddust við á úrslitaleiknum á …
Angela Merkel og Vladimir Pútín ræddust við á úrslitaleiknum á HM 2014 í Brasilíu. Merkel, sem talar reiprennandi rússnesku, er sögð hringja reglulega í Pútín vegna Úkraínudeilunnar, nú síðast í kvöld. AFP

Angela Merkel kanslari Þýskalands hringdi í Vladimír Pútín í dag og lagði fast að honum að binda endi á flæði vopna, hermanna og ráðgjafa yfir landamærin til Úkraínu. Vaxandi spenna er nú á átakasvæðinu í Austur-Úkraínu og segjast þarlend stjórnvöld hafa eyðilagt hluta af vopnabúri Rússa sem flutt hafi verið yfir landamærin.

Atlantshafsbandalagið hefur sakað Rússa um að grafa undan stöðugleika í austurhluta Úkraínu, þar sem aðskilnaðarsinnar sem vilja sameinast Rússlandi hafa í fjóra mánuði háð bardaga við úkraínska stjórnarherinn.

Nú í vikunni hafa stjórnvöld landanna tveggja deilt harðlega um rússneska bílalest með nærri 300 flutningabílum sem Úkraínumenn telja að sé n.k. Trójuhestur sem flytji vopn til uppreisnarmanna. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Chuck Hagel, hringdi í kollega sinn í Rússlandi Sergei Shoigu fyrr í dag og sá hét honum því að ekkert væri í bílunum annað en hjálpargögn.

Angela Merkel, sem talar reiprennandi rússnesku, biðlaði í símtalinu til Pútíns í kvöld að hann gerði sitt til að róa ástandið. Hún sagðist jafnframt vona að hjálpargögnin kæmu fljótlega á áfangastað til að draga úr þjáningu almennra borgara.

Deilan verði ekki leyst með hernaði

Úkraínumenn og stjórnvöld á Vesturlöndum hafa látið í ljósi áhyggjur af því að Rússar noti ef til vill neyðarástandið vegna átakanna í Austur-Úkraínu sem átyllu til að gera innrás í landið. Hermálasérfræðingar í Moskvu telja það þó ólíklegan möguleika en spá langvinnum átökum milli stjórnarhers Úkraínu og uppreisnarmanna sem njóta stuðnings ráðamannanna í Kreml.

Uppreisnarmennirnir í austanverðri Úkraínu hafa átt undir högg að sækja og hörfað til höfuðvígja sinna í borgunum Donetsk og Lúgansk. Stjórnherinn er sagður vera nálægt því að króa uppreisnarmennina af. Stjórnvöld á Vesturlöndum óttast að Pútín, forseti komi þeim til hjálpar og sendi hersveitir yfir landamærin. Embættismenn Atlantshafsbandalagsins telja að stjórn Pútíns hafi sent a.m.k. 20.000 hermenn að landamærunum að Úkraínu.

Vestrænu ráðamennirnir hafa á bak við tjöldin hvatt Petro Porosénkó, forseta Úkraínu, til að reyna að semja um frið við uppreisnarmennina, frekar en að reyna að gersigra þá með hernaði, að sögn breska dagblaðsinsThe Daily Telegraph. Þeir óttast að hernaðurinn leiði til enn meira mannfalls og Rússar noti það sem átyllu til að senda hersveitir til Austur-Úkraínu.

Breska blaðið hefur eftir vestrænum embættismanni að þeim fari fjölgandi meðal samstarfsmanna Porosénkós sem geri sér grein fyrir því að ekki sé hægt að leysa deiluna um Austur-Úkraínu með hernaði. Afstaða forsetans sé hins vegar enn óljós. Hermt er að hann hafi lofað því að sigra uppreisnarmennina fyrir 24. ágúst, sjálfstæðisdag Úkraínu.

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna segja að nær 117.000 skráðir flóttamenn séu nú í Úkraínu og um 87% þeirra séu frá austanverðu landinu. Yfir 168.000 Úkraínumenn hafa flúið yfir landamærin til Rússlands, að sögn embættismanna SÞ, en Rússar segja að flóttamennirnir séu fleiri. Hermt er að 2.086 manns hafi látið lífið í átökunum.

Tæplega 300 rússneskir vörubílar eru á leið að landamærum Úkraínu, …
Tæplega 300 rússneskir vörubílar eru á leið að landamærum Úkraínu, að sögn Rússa með hjálpargögn en úkraínsk stjórnvöld kalla þá Trójuhesta og óttast að þeir flytji vopn og hermenn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert