Öryggisráðið einróma gegn íslamistum

Öryggisráð SÞ.
Öryggisráð SÞ. AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag einróma ályktun sem ætlað er að draga þrótt úr liðsmönnum íslamista í Írak og Sýrlandi. Markmiðið með henni er að stöðva fjármagnsstreymi til þeirra og liðssöfnun þeirra erlendis.

Fram kemur í frétt AFP að uppkastið að ályktuninni hafi verið samið af breskum stjórnvöldum en þar er sérstaklega kveðið á um aðgerðir sem beinast að sex leiðtogum íslamista, frá Kúveit, Sádi Arabíu og fleiri ríkjum, sem fela í sér ferðabann og frystingu eigna. Þar á meðal gagnvart forystumönnum hjá Íslamska ríkinu sem lagt hefur undir sig mikið landsvæði í Sýrlandi og Írak og myrt fjölda óbreyttra borgara.

Ennfremur er þess krafist í ályktuninni að Íslamska ríkið og aðrir hópar íslamista verði tafarlaust leystir upp og liðsmenn þeirra leggi niður vopn sín. Kallað er eftir því að öll ríki Sameinuðu þjóðanna leggi sitt að mörkum til þess að stöðva fjárstreymi til íslamista og að þeim berist liðsauki frá öðrum ríkjum. Þeim sem taki þátt í liðssöfnun fyrir íslamista er hótað með refsiaðgerðum. Þá eru ríki vöruð við því að eiga í viðskiptum við íslamista enda gæti það leitt til refsiaðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert