Krufningin vekur spurningar

Frá mótmælum í Ferguson um helgina. Dauði Browns hefur valdið …
Frá mótmælum í Ferguson um helgina. Dauði Browns hefur valdið mótmælum, óeirðum og skemmdarverkum á svæðinu. AFP

Michael Brown, sem var skotinn til bana af lögreglumanni 9. ágúst, hefur nú verið krufinn og bráðabirgðaniðurstöður krufningarinnar gerðar opinberar. 

Samkvæmt þeim var Brown skotinn að minnsta kosti sex sinnum og lentu öll skotin framan á líkama hans. Brown var skotinn fjórum sinnum í hægri handlegginn og tvisvar í höfuðið. 

„Með því að fá þessar takmörkuðu upplýsingar mun fólk trúa því sem það vill trúa um dauða Brown,“ segir Brian Stelter, fréttamaður CNN. „Sú staðreynd að öll skotin voru framan á líkama Brows getur ýtt undir kenningar sumra um að Michael Brown hafi ætlað að ráðast á lögreglumanninn.“

Stelter bætir þó við að skotsárin á handleggjum Browns veki upp spurningar. „Fjögur skot hæfðu hægri handlegg Browns. Þýðir það að hann var uppi með hendur er lögreglumaðurinn skaut?“

Skotinn um hábjartan dag

Nokkuð óvissa ríkir um hvað hafi gerst nákvæmlega þegar að lögreglumaðurinn Darren Wilson stöðvaði Brown í íbúðagötu um hábjartan dag. Vitni segja að Brown og Wilson hafi tekist á áður en Brown var skotinn. Lögreglan heldur því fram að Brown hafi ráðist á Wilson og reynt að ná byssu hans af honum. 

Hinsvegar hafa fjölmörg vitni sagt að Brown hafi ekki ráðist á Wilson, heldur verið uppi með hendur þegar lögreglumaðurinn byrjaði að skjóta.

Lögregluyfirvöld í St. Louis sýslu tilkynntu í síðustu viku að samkvæmt krufningu hafi Brown látist vegna skotsára. Ekkert kom fram um hversu oft hann hafi verið skotinn eða hvar. 

„Við munum ekki segja sérstaklega frá því hversu mörg skotsár voru á Brown á þessum tímapunkti,“ sagði lögreglan í tilkynningu. „Enn er verið að rannsaka dauða hans og meiri upplýsingar um krufninguna verða líklega ekki birtar fyrr en eftir margar vikur.“

Skotinn af löngu færi

Skortur á upplýsingum fékk fjölskyldu Brown til þess að leita annað og sækjast eftir sjálfstæðri krufningu. 

Meinafræðingurinn Michael Baden var fenginn til þess að kryfja Brown. Hann er velþekktur meinafræðingur og hefur vitnisburður hans verið mikilvægur í ýmsum þekktum morðmálum. Má þar nefna morðmál þeirra O.J. Simpson og Phils Spector. 

Sérfræðingur CNN, Joey Jackson, segir það mikið mál að Baden hafi verið fenginn til þess að kryfja Brown. „Fjölskyldan vill vita hvað gerðist. Af hverju ættu þau að sætta sig við það sem yfirvöld segja þeim?“

Samkvæmt krufningu Baden voru skotin sem hæfðu Brown skotin af löngu færi. Baden fær það út vegna þess að ekkert byssupúður fannst á líkinu. Það gæti þó breyst ef föt Browns yrðu skoðuð en Baden fékk ekki aðgang að þeim. 

Eins og áður kom fram var Brown skotinn tvisvar í höfuðið. Samkvæmt krufningu Badens hæfði önnur kúlan hægri auga Browns, fór í gegnum andlit hans, út um kjálkann og aftur sinn við viðbeinið. 

Hin kúlan hæfði efst á hauskúpu hans sem gefur til kynna að höfuð hans hafi hallað fram þegar hann var skotinn. 

Vill rannsaka byssuna

Baden er þó ekki hættur rannsókn málsins og vill rannsaka byssu lögreglumannsins. 

„Er aðeins fingraför lögreglumannsins á byssunni? Eða eru fingraför Michaels Brown þar líka? Það myndi segja mikið um hvort að einhver átök hafi átt sér stað.“

Samþykkt hefur verið að Brown verði krufinn að nýju en nú af meinafræðingi frá yfirvöldum. 

Sjá frétt CNN um málið.

Sjá frétt mbl.is: „Var skotinn sex sinnum“

FERGUSON, MO - AUGUST 17: Gabrielle Walker, 5, protests the …
FERGUSON, MO - AUGUST 17: Gabrielle Walker, 5, protests the killing of teenager Michael Brown on August 17, 2014 in Ferguson, Missouri. Despite the Brown family's continued call for peaceful demonstrations, violent protests have erupted nearly every night in Ferguson since his death. Scott Olson/Getty Images/AFP == FOR NEWSPAPERS, INTERNET, TELCOS & TELEVISION USE ONLY == AFP
Michael Brown var 18 ára þegar hann var skotinn til …
Michael Brown var 18 ára þegar hann var skotinn til bana af lögreglumanni. Ljós­mynd;Fés­bók­arsíðan Justice For Michael Brown
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert