Neyddust til að drekka þvag

Þrettán manns sem týndust eftir að ferðamannabátur sökk í Indónesíu á laugardaginn hefur nú verið bjargað. Tíu manns var bjargað í gær en tveir spænskir menn eru enn ófundnir eftir slysið. Í gær var því haldið fram í fjölmiðlum að tíu manns væru ófundnir eftir slysið en þau reyndust þrettán talsins. 

Sumir syntu fimm kílómetra til að komast á land og þurftu m.a. að drekka sitt eigið þvag til þess að lifa af.

Báturinn lenti í óveðri seint á föstudag og sökk snemma á laugardagsmorgun.

Sumir náðu að komast í eina björgunarbátinn á bátnum en hann tók aðeins sjö farþega. Aðrir þurftu að klifra á þak bátsins.

Fólkið skiptist í tvo hópa þegar það kom í ljós að ekki væri nógu mikið pláss í björgunarbátnum og heldur ekki fjarskiptatækni til þess að kalla eftir hjálp.

10 manns ákváðu að synda í land og björguðust þau á sunnudaginn en óttast var um örlög þeirra sem fundust ekki.

Franski ferðamaðurinn Bertrand Homassel var meðal þeirra sem syntu á eyjuna og björguðust í gær. Hann lýsti því í samtali við AFP hvernig hann og fleiri héngu á þaki bátsins í marga klukkutíma á meðan hann sökk. Á endanum ákvað hann og aðrir að synda í átt að eyju sem þeir sáu. Eyjan er eldfjallaeyja og rauk reykur úr fjallinu á meðan þeir syntu að eyjunni. 

Að sögn Homassels tók það sex klukkutíma að synda að eyjunni en það var eini möguleiki þeirra til að haldast á lífi. 

Aðeins einn björgunarbátur var á bátnum og hann fylltist hratt.„ Hinir klifruðu upp á þak bátsins sem var ekki alveg sokkinn,“ sagði hann. „Við vorum fimm kílómetra frá ströndinni og það var mikill öldugangur. Fólk byrjaði að örvænta og sumir ákváðu að synda að næstu eyju sem var í fimm kílómetra fjarlægð.“

Þegar fólkið kom á eyjuna var það bæði uppþornað og sólbrennt. Það eina í stöðunni var að drekka sitt eigið þvag og borða laufblauð til þess að lifa nóttina af.

Fólkinu var bjargað næsta morgun og farið var með það til eyjunnar Sumbawa. Þar eru þau núna að jafna sig. „Ég var rosalega heppinn,“ bætti Homassel við. 

Hópurinn sem bjargaðist í dag samanstóð af átta ferðamönnum og fimm Indónesum. 

Hollendingurinn Jan van Ommen sem bjargaðist í dag sagði að hópurinn hafi verið í vatninu í 40 klukkutíma. Fólkið var í björgunarbátum og sjónum til skiptis. „Við vorum með kerfi, það gekk ekki vel í upphafi, en betur eftir því sem leið á,“ sagði van Ommen.

Hann segir að áhöfnin á bátnum hafi byrjað að örvænta á föstudagskvöldið útaf óveðrinu og vatn byrjaði að streyma inn í bátinn. „Áhöfnin öskraði að nú væri komið upp mjög hættulegt ástand og vatnið streymdi inn,“ sagði hann. 

Hópurinn fannst snemma í morgun, fljótandi í um 100 km fjarlægð frá Sumbawa. Enginn var alvarlega særður eftir slysið. Þó var hópurinn veikburða eftir að hafa hvorki borðað né drukkið í nokkra daga.

Alls voru 25 manns í bátnum þegar hann sökk. Ferðamennirnir sem bjargað var voru frá Nýja-Sjálandi, Bretlandi, Spáni, Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu.

„Tíu ferðamenn ófundnir eftir bátsslys“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert