Bandarískur blaðamaður tekinn af lífi

James Foley er hér myndaður árið 2011 þegar hann var …
James Foley er hér myndaður árið 2011 þegar hann var að störfum í Líbýu. Hann hefur nú verið myrtur af meðlimum samtakanna Ríki Íslam. Mynd/AFP

Fulltrúar úr samtökunum Ríki Íslam (IS) halda því fram í kvöld að þeir hafi tekið bandaríska blaðamanninn James Foley af lífi, til þess að hefna fyrir loftárásir Bandaríkjamanna gegn samtökunum í Írak. 

Gáfu samtökin út myndband í dag sem á að sýna Foley verða hálshöggvinn. Var morðið framið í miðri eyðimörk þar sem erfitt er að bera kennsl á svæðið sem sést í bakgrunni myndbandsins. Morðingi Foleys er með grímu fyrir andlitinu og talar ensku með breskum hreim. Foleys hefur verið saknað eftir að hann var tekinn fastur af skæruliðum í Sýrlandi árið 2012. Samtökin „Find James Foley“ sem hafa unnið að því frá hvarfi hans, að koma honum heilum og höldnum heim, kröfðust í kvöld svara í opinberri tilkynningu á heimasíðu sinni.

Foley var reyndur blaðamaður sem hafði áður skrifað ítarlega um stríðið í Líbýu áður en hann hélt til Sýrlands. Þar sinnti hann fréttastörfum fyrir Global Post og fréttaveituna AFP. 

Var hann tekinn höndum af skæruliðum í Sýrlandi þann 22. nóvember árið 2012 og hefur ekkert spurst til hans síðan þrátt fyrir ítarlegar leitaraðgerðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert