Aftöku systra frestað

Lögreglumaður stendur vörð við hæstarétt Indlands.
Lögreglumaður stendur vörð við hæstarétt Indlands. AFP

Indverskur dómstóll frestaði í dag aftöku tveggja stjúpsystra sem dæmdar voru til dauða árið 2001 fyrir að myrða fimm börn. Konurnar rændu alls þrettán börnum og neyddu þau til að aðstoða sig við að ræna borgara, en þau myrtu síðan a.m.k. fimm þeirra með því að skella höfðum þeirra ítrekað utan í vegg. Börnunum var ætlað að ná athygli fórnarlambanna meðan systurnar rændu þá, en einnig voru þau látin betla og stunda sjálf vasaþjófnað. Systurnar voru upphaflega ákærðar fyrir að myrða níu börn, en aðeins tókst að sanna fimm morð.

Fari aftökurnar fram verða systurnar Renuka Shinde og Seema Gavit fyrstu konurnar til að vera teknar af lífi í Indlandi frá því að landið hlaut sjálfstæði. Dauðarefsingu má aðeins beita í þeim tilfellum þar sem um „gríðarlega grimmileg og óvenjuleg brot“ er að ræða, en síðast aftaka fór fram í fyrra.

Áfrýjun kvennanna byggist á því að of langur tími hafi liðið frá því að dómur yfir þeim féll og ekki sé rétt að láta fanga bíða aftöku svo lengi. Hæstiréttur landsins setti fordæmi með úrskurði sínum í ár þar sem kom fram að óhófleg og óútskýranleg töf á aftöku gæti verið grundvöllur fyrir mildun dauðadóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert