Dómsmálaráðherra heimsækir Ferguson

Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hyggst heimsækja Ferguson í Missouri þar sem óeirðir hafa geisað eftir að lögreglumaður skaut þeldökkan pilt í til bana, en Holder hyggst reyna draga úr spennunni sem hefur myndast í samfélaginu.

Holder heitir sjálfstæðri og ítarlegri rannsókn á atvikinu, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins. 

Undanfarnar tíu nætur hafa hörð átök geisað á milli lögreglu og mótmælenda í Ferguson, sem er úthverfi St. Louis. Mikil reiði braust út eftir að unglingspilturinn Michael Brown var skotinn til bana. Brown var óvopnaður.

Í gærkvöldi handtók lögreglan 47 mótmælendur en hún sagði að mjög hefði dregið úr ofbeldisverkum.

Áhrifafólk í samfélaginu hefur hvatt íbúa til að sýna stillingu og vinna að friði. 

Holder skrifaði opið bréf sem birtist í St. Louis Post-Dispatch í gær. Þar sagði hann, að dómsálaráðuneytið myndi vernda rétt fólks til að mótmæla með friðsamlegum hætti. 

Hann bætti því svo við, að yfirvöld geti ekki látið ofbeldi viðgangast. Hann hvatti íbúa Ferguson til að fordæma hegðun skemmdarvarga, þjófa og annarra sem reyna hella olíu á eldinn og ýta undir sundurlyndi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert