Eyddu 71 milljón í girðingu

Vilhjálmur Alexander konungur og Maxíma drottning.
Vilhjálmur Alexander konungur og Maxíma drottning. AFP

Hollenska ríkið eyddi um 71 milljón króna (460 þúsund evrum) í að leigja land og girða af sumarbústað hollensku konungshjónanna í Grikklandi. Málið hefur vakið gremju margra landsmanna, en áður hafði komið fram að landið kostaði ríflega fimm milljónir króna (35 þúsund evrur).

Alexander Pechtold, leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins D66, hefur látið í sér heyra vegna málsins og segir upphæðina „óheyrilega háa“. Forsætisráðherrann Mark Rutte lýsti því yfir fyrr á árinu að ríkið myndi greiða fyrir öryggisráðstafanir umhverfis húsið, en nefndi þó enga ákveðna upphæð.

Í yfirlýsingu frá konungshöllinni kom fram að kaup á landinu og framkvæmdir hefðu verið nauðsynlegar af öryggisástæðum. Þar kom jafnframt fram að ekki væri hægt að gefa út frekari yfirlýsingar eða upplýsingar um málið, einnig af öryggisástæðum. Konungshjónin seldu sumarhús sitt í Afríkuríkinu Mósambík árið 2009 eftir mikla óánægju með með þann íburð og munað sem þar réð ríkjum samanborið við lífskjör landsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert