Fordæma morðið á Foley

Vestræn stjórnvöld hafa fordæmt aftöku liðsmanna Íslamska ríkisins á bandaríska blaðamanninum James Foley. Birt var myndband af aftöku hans á netinu í gær en hans hafði verið saknað frá því árið 2012 þegar hann hvarf í Sýrlandi.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi eru á meðal þeirra vestrænu ríkja sem hafa fordæmt aftökuna. Franska ríkisstjórnin sagði hana hafa verið villimannlega og sakaði liðsmenn Íslamska ríkisins um heigulshátt. 

Fram kemur í myndbandinu að aftakan sé hefnd fyrir loftárásir Bandaríkjamanna á liðsmenn Íslamska ríkisins. Athygli hefur vakið að maðurinn sem framkvæmir aftökuna talar með breskum hreim á myndbandinu.

Í lok myndbandsins er annars bandarískur blaðamaður sýndur, Steven Sotloff, sem rænt var í Sýrlandi fyrir ári síðan og þeim skilaboðum komið á framfæri að hann hljóti sömu örlög og Foley ef árásir Bandaríkjamanna á Íslamska ríkið halda áfram.

Fjallað er meðal annars um málið í fréttum AFP og breska ríkisútvarpsins BBC í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert