Fórnarlömbin 11 í nótt

Eiginkona og barn herforingja Hamas á Gaza eru meðal þeirra ellefu sem létust í loftárásum Ísraela í nótt. Samkvæmt upplýsingum BBC frá Hamas í Kaíró í Egyptalandi var árásunum beint að Mohammed Deif, yfirmanni hernaðararms Hamas. 

Ísraelsher segir að skotið hafi verið um fimmtíu eldflaugum frá Gaza í gær og enn fleiri í nótt. Þrátt fyrir það hafa ekki borist fregnir af því að nokkur hafi særst í þessum árásum.

Samkvæmt BBC er ekki vitað hvort Mohammed Deif hafi lifað árásirnar af sjálfur en aðstoðarleiðtogi Hamas, Mussa Abu Marzuk, sem er í útlegð í Egyptalandi, segir að bæði eiginkona hans og tveggja ára gömul dóttir séu meðal fórnarlamba árása Ísraelshers í nótt.

Loftárásir Ísraelshers nú eru þær fyrstu á Gaza síðan 10. ágúst en tímabundið vopnahlé milli Ísraels og Palestínu rann út á miðnætti. 

Meðal annarra fórnarlamba Ísraelshers í nótt og morgun er þunguð kona, þrjú börn og tveir karlar. Þau eru öll úr sömu fjölskyldunni í bænum Deir el-Balah. Konan var komin níu mánuði á leið og reyndu læknar að bjarga barninu án árangurs.

Alls hafa 2.026 Palestínumenn látist í árásum Ísraela og 67 Ísraelsmenn í árásum Hamas frá því átökin brutust út 8. júlí sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert