Dr. Brantly læknaður af ebólunni

Dr. Kent Brantly við störf í Líberíu.
Dr. Kent Brantly við störf í Líberíu. AFP

Dr. Kent Brantly, bandaríski læknirinn sem var fyrsti maðurinn til að fá tilraunalyfið ZMapp við ebólu, verður útskrifaður af sjúkrahúsi í Bandaríkjunum í dag. Rannsóknir sýna að hann ber vírusinn ekki lengur í blóðinu.

Dr. Brantly var jafnframt fyrsti maðurinn með ebólu utan Afríku svo vitað sé til, en hann var fluttur með sjúkraflugi frá Líberíu í Afríku eftir að hann fékk lyfið. Hann hefur legið í einangrun á Emerson háskólasjúkrahúsinu í Atlanta í Georgíu, en þar hefur verið boðaður blaðamannafundur síðar í dag vegna bata hans, að sögn CNN.

Munu þá einnig verða veittar upplýsingar um líðan hjúkrunarfræðingsins Nancy Writebol, sem fékk lyfið á eftir Brantly en hefur ekki náð eins örum bata. Eiginmaður Writebol, David, heimsótti hana á sjúkrahúsið á sunnudag en gat aðeins haft samskipti við hana gegnum gler í einangrunarstofunni. „Við lögðum bæði hendur okkar hvort á sína hlið glersins og táruðumst af gleði yfir að sjá hvort annað aftur,“ hefur CNN eftir yfirlýsingu frá David Writebol. 

Áður en dr. Brantly var hleypt úr einangruninni voru gerðar tvær blóðprufur, tvo daga í röð, og reyndust þær neikvæðar. Ebóluveiran smitast með líkamsvökvum, s.s. blóði svita og hægðum. Brantly er ekki lengur smitberi að því leyti, en veiran gæti þó hugsanlega verið í allt að 3 mánuði í sæðinu, skv. upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Um helmingur þeirra sem sýkst hafa í þessum ebólafaraldri hafa látið lífið. Enginn þekkt lækning er til, þótt vonir séu nú um að ZMapp tilraunalyfið kunni að vera lausnin. Meðferð við ebólu felst því fyrst og fremst í því að gefa næringu í æð, til að vega upp á móti vökvatapi og bregðast við bráðaeinkennum sem geta m.a. verið mikill hiti, niðurgangur og blæðingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert