Látinn laus eftir sex ár á dauðadeild

AFP

Kínverskur dómstóll sýknaði í dag mann sem hefur setið í sex ár á dauðadeild en hann var dæmdur til dauða fyrir tvö morð árið 2008. Í ljós hefur komið að maðurinn var saklaus.

Nian Bin, sem rak matsölu á sínum tíma, var dæmdur fyrir að hafa eitrað fyrir tveimur börnum og dæmdur til dauða árið 2008. Hann hefur setið í fangelsi síðan.

Mál hans hefur ítrekað farið í gegnum áfrýjunarferli þar sem lögfræðingar hafa tekist á um sönnunargögn sem sakfelling hans byggði á. Hafa verjendur hans haldið því fram að Nian hafi verið pyntaður til að játa og í dag sýknaði hæstiréttur í Fujian hann. Afar sjaldgæft er að sýknað sé á æðra dómstigi hafi viðkomandi verið dæmdur í undirrétti í Kína. Í fyrra var sakfellt í 99,93% tilvika þegar málum hafði verið áfrýjað í kínversku réttarkerfi.

Ekki er gefið upp opinberlega hversu margar aftökur fara fram á hverju ári í Kína en talið er að þær hafi verið um þrjú þúsund talsins árið 2012. Algengt er að pyntingum sé beitt til þess að fá fólk til þess að játa á sig glæpi. Í niðurstöðu hæstaréttar í dag kemur fram að ekkert þeirra sönnunargagna sem lögð voru fram í málinu hafi átt við rök að styðjast. 

Lögfræðingur Nians segist vonast til þess að dómurinn hafi fordæmisgildi en fjölskylda Nian hefur þurft að þola ítrekaðar árásir, andlegri heilsu dóttur hans hefur hrakað mjög og kona hans hefur liðið sárar þjáningar þessi sex ár, segir lögfræðingurinn Si Weijiang.

Nian, sem er nú 38 ára gamall, hefur lýst því hvernig lögreglan hafi beitt hann pyntingum. Til að mynda hafi hann verið hengdur upp á krók og barinn þar til hann játaði á sig morðin. Hann var fyrst handtekinn árið 2006 eftir að tvö börn létust og fjórir úr sömu fjölskyldu veiktust. Fólkið var nágrannar hans og var talið að þau hefðu neytt rottueiturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert