Geti afturkallað norskt ríkisfang

Siv Jensen
Siv Jensen SCANPIX NORWAY

Stjórnvöld í Noregi hafa til skoðunar lagabreytingu sem opnaði á þann möguleika að svipta þarlenda ríkisborgara, sem hafa farið með grófum hætti gegn mikilvægum hagsmunum norska ríkisins eða hafa af fúsum og frjálsum vilja gegnt herþjónustu með erlendum her, norsku ríkisfangi sínu. Norska ríkisútvarpið NRK greindi frá þessu í gær.

Fram kemur í fréttinni að verið sé að kanna hvernig rétt sé að útfæra slíka lagabreytingu og hversu víðtæk hún verði. Markmiðið með vinnunni sé hins vegar ljóst að sögn Sivjar Jensen, fjármálaráðherra Noregs og leiðtoga Framfaraflokksins. Hún sé að koma í veg fyrir öfga og hryðjuverkastarfsemi.

Hins vegar segir að formaður dómsmálanefndar norska Stórþingsins, Hadia Tajik þingmaður Verkamannaflokksins, sé ekki sannfærð um að slík lagabreyting hefði tilætluð áhrif. Spurningin sé hvort öryggi Norðmanna sé betur fyrir komið með fjölda hryðjuverkamanna í Sýrlandi sem hafi harma að hefna gagnvart Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert