„Stjáni blái“ látinn laus

John Jairo Velasquez Vasquez
John Jairo Velasquez Vasquez AFP

 Einn helsti morðingi eiturlyfjabarónsins sáluga, Pablo Escobar, var látinn laus úr fangelsi í Kólumbíu í gær eftir að hafa afplánað 22 ár af þeim þrjátíu sem hann var dæmdur í. 

John Jairo Velasquez Vasquez, sem gengur undir gælunafninu „Popeye“ eða Stjáni blái, var látinn laus fyrr vegna þess að hann veitti saksóknara aðstoð við rannsókn á fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, sem nú hefur verið dæmdur.

John Jairo Velasquez Vasquez hefur játað á sig 300 morð og að hafa staðið á bak við skipulagningu á morðum á 3 þúsund manns til viðbótar.

Hann var dæmdur fyrir morðið á forsetaframbjóðandanum Luis Carlos Galan árið 1989. Hann samdi síðar við saksóknara um að vera lykilvitni í sakamáli gegn dómsmálaráðherranum fyrrverandi, Alberto Santofimio, sem var dæmdur fyrir að hafa skipulagt morðið á Galan.

Galan, sem barðist hatramlega gegn eiturlyfjahringjum landsins, var talinn líklegur til þess að vinna forsetakosningarnar 1990. Hann var skotinn til bana á torgi í bæ skammt frá Bogota þar sem hann ætlaði að halda ræðu. Það voru vígamenn á vegum Escobar sem stýrði Medellin eiturlyfjahringnum, sem frömdu morðið.

Stjáni blái (Velasquez), sem er 52 ára, hefur í fjölmörgum fjölmiðaviðtölum játað á sig mörg morð og aðra glæpi, svo sem að hafa rænt fyrrverandi forseta landsins, Andres Pastrana, og að hafa myrt unnustu sína, að skipun yfirmanns síns, Escobar.

Lögreglumaður stendur vörð er John Jairo Velasquez Vasquez, aka Popeye …
Lögreglumaður stendur vörð er John Jairo Velasquez Vasquez, aka Popeye er látinn laus úr fangelsi í gærkvöldi. AFP
John Jairo Velasquez Vasquez, eða Popeye
John Jairo Velasquez Vasquez, eða Popeye AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert