Zara neydd til að taka náttföt úr sölu

Fatakeðjan Zara er hluti af spænsku Inditex samstæðunni.
Fatakeðjan Zara er hluti af spænsku Inditex samstæðunni. Inditex

Tískuvörukeðjan Zara hefur neyðst til að taka barnanáttföt úr sölu og biðjast afsökunar. Náttfötin voru þverröndótt með gulri stjörnu og þóttu minna óþægilega á fangabúninga gyðinga í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimstyrjöldinni.

Í ísraelskum fjölmiðlum hefur náttfötunum verið lýst sem „ferskum andblæ úr útrýmingarbúðum nasista.“ 

Gríðarleg reiði greip um sig meðal gyðinga og fór hún eins og stormsveipur um samfélagsmiðla eins og Twitter. Fór svo að Zara tók náttfötin úr sölu en þau voru framleidd í Tyrklandi. Samkvæmt upplýsingum Telegraph átti gula stjarnan að vísa til stjörnu þeirrar sem lögreglustjórar bera í bandarískum vestrum.

Í tilkynningu kemur fram að fyrirtækið biðjist innilegrar afsökunar á þessu og að varan sé ekki lengur í sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert