Magnús Carlsen gæti tapað titlinum

Magnus Carlsen og Vishwanath Anand.
Magnus Carlsen og Vishwanath Anand. AFP

Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, verður mögulega sviptur titli sínum neiti hann að tefla heimsmeistaraeinvígi gegn Viswanathan Anand í Rússlandi en það á að hefjast 8. nóvember í borginni Sotsjí. Carlsen hefur ekki skrifað undir samning þess efnis en frestur til þess rennur út á morgun.

Hrókurinn fjallar ítarlega um málið á vefsvæði sínu. Þar segir að Espen Agdestein, umboðsmaður Magnúsar, hafi í tvígang óskað eftir frestun einvígisins af ýmsum ástæðum, meðal annars ástandsins í Úkraínu og viðskiptaþvingunum í kjölfar þess. Þá er Carlsen ósáttur við að verðlaunafé sé þrjár milljónir dollara en sú upphæð er helmingi lægri en teflt var um á Indlandi á síðasta ári.

Nýlega sagði Hrókurinn frá því að FIDE hefði hafnað beiðni liðsmanna Magnúsar Carlsens um að fresta heimsmeistaraeinvíginu. Lið Magnúsar sendi svo aftur erindi til Alþjóða skáksambandsins, FIDE, og óskaði eftir að einvíginu verði frestað fram yfir áramót. Ber liðið við að afar skammur tími sé til stefnu til undirbúnings einvígisins. Í því samhengi er nefnt að hinn skammi undirbúningstími komi niður á væntanlegum fréttaflutningi frá einvíginu, enda þurfi sjónvarpsstöðvar og aðrir sem fjalla um einvígið, langan tíma til undirbúnings.

FIDE hefur svarað þessu nýjasta erindi Espens og tekið af allan vafa um að einvígið skuli fara fram þann 7. nóvember í Sotsjí og ef Magnús mæti ekki til leiks, þá verði hann einfaldlega sviptur titlinum.

Hrókurinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert