Sýndu mannréttindabrot í beinni

Torg hins himneska friðar.
Torg hins himneska friðar. Ljósmynd/Wikipedia

Lögregluyfirvöld í Kína tilkynntu í dag að þau hefðu handtekið fertugan verkfræðing sem grunaður er um að hafa brotist inn í sjónvarpsútsendingakerfi kínverskrar sjónvarpsstöðvar með þeim afleiðingum að ýmsum óheppilegum myndum fyrir ríkisstjórnina var sjónvarpað.

Meðal þess sem áhorfendur sáu á skjánum 1. ágúst voru myndir frá mótmælunum blóðugu á Torgi hins himneska friðar árið 1989, slagorð gegn kommúnistastjórninni og myndir af meintum mannréttindabrotum ríkisstjórnarinnar, þ.á m. mynd af herbíl að aka yfir mótmælanda.

Verkfræðingurinn var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Peking 16. ágúst, en það þykir sæta furðu að ekki hafi verið tilkynnt um handtökuna fyrr en nú. Lögregluyfirvöld lýstu því ennfremur yfir að rannsókn málsins stæði nú yfir.

Talið er að mörg hundruð eða jafnvel yfir þúsund einstaklingar hafi látið lífið í mótmælunum á Torgi hins himneska friðar. Kommúnistastjórn landsins líður ekki skipulögð mótmæli og hafa þeir sem mótmæla og gagnrýna stjórnarhætti hennar reglulega verið handteknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert