Umburðarlyndi lykill að góðu hjónabandi

Ásdís Ásgeirsdóttir

Bresk hjón sem kynntust sem unglingar tíu árum áður en seinni heimsstyrjöldin braust út fagna nú áttatíu ára brúðkaupsafmæli. 

Maurice og Helen Kaye frá Bournemouth kynntust árið 1929 þegar þau voru 17 og 16 ára. Þau sátu í festum í fjögur ár þar sem móðir Helenar vildi að eldri systir hennar gengi fyrst í hjónaband. 

Í frétt BBC kemur fram að Maurice er 102 ára og Helen 101 árs og þau segja umburðarlyndi lykilinn á bak við hamingjuríkt hjónaband og eins að vera reiðubúinn til að fyrirgefa og gleyma.

Kaye-hjónin ætla að fagna áfanganum með börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum.

BBC segir að Helen hafi unnið í verslun móður sinnar í Walworth í Suður-Lundúnum þegar hún kynntist Maurice en faðir hans vildi reyna að koma vörum sínum í sölu hjá versluninni. Svo fór að hann hékk í búðinni í þrjá tíma eða allt þar til tengdamóðir hans tilvonandi hótaði að henda honum út.

Það var að lokum bifreið Kayes sem vakti athygli ungu stúlkunnar en að hennar sögn var afar fátítt að fólk ætti bifreiðir á þessum tíma. „Þetta gerði hann áhugaverðan,“ segir Helen í viðtali við BBC.

Talið er að Karam og Kartari Chand, sem gengu í hjónaband árið 1925, séu þau hjón í Bretlandi sem lengst hafa verið gift.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert