Bjarga innflytjendum á sjó

Skipið Phonenix.
Skipið Phonenix. AFP

Hjónin Regina og Chris Catrambone hafa látið útbúa skip sem þau hyggjast nota til að bjarga innflytjendum sem reyna að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Skipið, sem þau segja að sé það fysta sinnar tegundar, hafa þau fjármagnað á eigin kostnað, og hefur það kostað þau hundruð milljóna. Fjallað er um málið á fréttaveitu BBC.

Hugmyndin kviknaði hjá hjónunum síðasta sumar, en þá voru þau á snekkjusiglingu í Miðjarðarhafinu. „Ég og eiginmaður minn vorum á þilfarinu þegar við sáum vetrarjakka fljóta í sjónum, eins og draug,“ segir Regina. Hjónin spurðu skipstjórann hvernig jakkinn hafi endað þarna. „Hann varð mjög myrkur og sagði að manneskjan sem hefði átt jakkann væri líklega ekki lengur á meðal oss. Það greip athygli okkar.“

Þau uppgötvuðu að jakkinn hefði líklegast tilheyrt einum af þeim þúsundum innflytjenda sem reyna að komast yfir Miðjarðarhafið og til Evrópu á ári hverju. Alls hafa 1.889 manns dáið í sjónum síðan í byrjun árs og 1.600 af þeim síðan í byrjun júní samkvæmt flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Hlýddu kalli páfans

Stuttu síðar sáu hjónin páfann í sjónvarpinu kalla til frumkvöðla til að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda. „Ég og eiginmaður minn litum hvort á annað og sögðum: „Gerum eitthvað.“ Frá þeirri stundu kom hugmyndin að kaupa bát og gera eitthvað í Miðjarðarhafinu þar sem fólk deyr á hverjum degi.“

Síðan þá hafa hjónin eytt stórum fjárhæðum í að kaupa skipið Phoenix sem er með höfuðstöðvar í Möltu, þar sem þau búa. Það hefur björgunarbáta og tvo dróna sem verða notaðir til að finna og hjálpa innflytjendum sem reyna að komast inn í Evrópu með bátum, aðallega frá Afríku.

„Við erum frumkvöðlar“

Myndavélar úr skipinu eru með HD-gæðum og nætursjón. „Þetta er sögulegt á margan hátt en við erum fyrsta borgaralega skipið sem notast við svona gríðarlega tækni. Við vonum að það sem við erum að gera muni hjálpa við aðstæður björgunaraðgerða á sjó. Við erum frumkvöðlar. Við erum að reyna að gera eitthvað sem enginn annar hefur haft tök á að gera og höfum sett okkar eigin peninga í það,“ segir Chris.

Hjónin ætla sér að taka innflytjendur um borð í bátinn og flytja þá svo til Möltu eða Ítalíu þar sem yfirvöldin taka við. Regina og Chris munu bæði fara ferðir með bátnum ásamt meðlimum áhafnarinnar sem hafa mikla reynslu af björgunaraðgerðum á sjó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert