Brot gegn fullveldi Úkraínu

Úkraínskur hermaður með sjálfvirkan riffil. Hann og samherjar hans svipuðust …
Úkraínskur hermaður með sjálfvirkan riffil. Hann og samherjar hans svipuðust um eftir uppreisnarmönnum, eftir að skotið var á þá þar sem þeir stóðu vörð. OLEKSANDR RATUSHNIAK

Atlantshafsbandalagið (NATO) hefur ásakað Rússa um „augljós brot“ í Úkraínu, þar sem rússneskar hersveitir hafi farið inn í landið til að styðja uppreisnarmenn.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri bandalagsins, sagði að þrátt fyrir „innantómar afneitanir“ Rússa, þá væri augljóst að rússneskar hersveitir hefðu farið ólöglega inn í Úkraínu. Hann sagði að NATO myndi sýna ákvörðunum Úkraínu skilning. Forsætisráðherra Úkraínu segir að landið hyggist stefna á aðild að NATO.

Á meðan neita stjórnvöld í Rússlandi því að hafa sent hersveitir eða vopn inn í landið.

Vladímír Pútín kennir stjórnvöldum í Úkraínu um hvernig málum er háttað, og ber „umsátur“ stjórnvalda um borgirnar Donetsk og Luhansk, sem eru í höndum uppreisnarmanna, við umsátur nasista um Leníngrad (nú St. Pétursborg) í seinni heimsstyrjöldinni. 

Rússland - ekki Rússland

Kanadamenn hafa tekið að sér að kenna rússneskum hermönnum landafræði, eftir að fjöldi þeirra segist hafa ráfað inn í Úkraínu fyrir slysni. 

Þessi mynd birtist á Twitter-reikningi fulltrúa Kanada í Nato, þar sem grín er gert að þessum skýringum villuráfandi hermanna Rússa.

Barack Obama sagði í ávarpi í gær að Bandaríkjaher yrði ekki beitt í Rússlandi, en að hét því að NATO myndi verja sína minnstu meðlimi. Forsetinn mun hitta Petro Porosénkó, forsætisráðherra Úkraínu, í Hvíta húsinu í næsta mánuði.

Mikil átök hafa verið undanfarna daga um hafnarborgina Mariupol. Uppreisnarmenn reyna hvað þeir geta til að ná borginni á sitt vald, en úkraínski herinn víggirðist til að halda borginni. Nái uppreisnarmenn yfirráðum yfir borginni mun landleið undir stjórn uppreisnarmanna og Rússa vera milli Rússlands og Krímskaga.

Í gær tóku uppreisnarmenn borgina Novoazovsk, auk þess sem fregnir hafa borist af því að þeir hafi umkringt hermenn Úkraínuhers nærri borginni Donetsk.

Hættuleg vegferð

Rasmussen sagði á blaðamannafundi eftir neyðarfund fulltrúa NATO-ríkja að augljóst væri orðið að Rússar stæðu í beinum hernaðaraðgerðum í Úkraínu. 

„Þetta er ekki einangrað atvik, heldur hluti af áætlun sem hefur verið í gangi í marga mánuði til að veikja Úkraínu sem fullvalda þjóð. Þetta er klárt brot á fullveldi Úkraínu.“ Þá gaf hann í skyn að NATO væri tilbúið að fallast á aðildarumsókn Úkraínu að bandalaginu ef það stæðist kröfur NATO.

Landið sótti um aðild að Atlantshafsbandalaginu árið 2008. Þeirri umsókn var hins vegar stungið undir stólinn tveimur árum síðar, þegar Viktor Janúkóvitsj komst til valda. Hann naut stuðnings Rússlands, en var steypt af stóli í byltingu í Úkraínu í vor.

Í gær birti NATO gervihnattarmyndir, sem eru sagðar sýna rússneskar hersveitir innan landamæra Úkraínu.

Gervihnattarmyndir, sem sýna rússneska hermann í Úkraínu. Talið er að …
Gervihnattarmyndir, sem sýna rússneska hermann í Úkraínu. Talið er að vel yfir 1.000 hermenn hafi farið yfir landamærin til Úkraínu. AFP
Rússneskur skriðdreki, sem úkraínskir hermenn náðu úr höndum uppreisnarmanna.
Rússneskur skriðdreki, sem úkraínskir hermenn náðu úr höndum uppreisnarmanna. AFP
Vopn sem náðust af uppreisnarmönnum í Úkraínu.
Vopn sem náðust af uppreisnarmönnum í Úkraínu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert