Henti nýfæddu barni í ruslafötu

Alicia Marie Englert
Alicia Marie Englert Salt Lake County Sheriff

Nýfædd stúlka sem fannst í ruslafötu við heimili í Kearns í Utahríki í Bandaríkjunum berst nú fyrir lífi sínu á spítala í bænum en móðir stúlkunnar skildi hana eftir í ruslafötu nágranna sinna. Þetta kemur fram í fréttum á Yahoo News.

Móðir stúlkunnar, hin 23 ára gamla Alicia Marie Englert, var handtekin á þriðjudagskvöld, grunuð um tilraun til manndráps.

Faðir Aliciu, Robert Englert, sagði í samtali við fjölmiðla í Utah að dóttir hans væri með námsörðuleika og skildi ekki afleiðingar gjörða sinna. „Hún skilur ekki einu sinni að þetta sé glæpur og að þetta sé slæmt,“ sagði Englert í samtali við The Salt Lake Tribune. Hann sagðist ekki vita hver faðir barnsins sé.

Móðir Aliciu, Tammy Englert, tók undir þetta í samtali við Deseret News og sagði dóttur sína ekki skilja hvað hafi gerst. Hún sagði Aliciu hafa fitnað síðustu mánuði, en hún segist ekki hafa haft hugmynd um að dóttir sín væri ólétt.

Vonaði að barnið myndi deyja í ruslafötunni

Unga konan sagði yfirvöldum að hún hafi falið óléttuna frá foreldrum sínum og vonað að nýfædda barnið myndi deyja í ruslafötunni, en það taldi hún að myndi leysa öll hennar vandamál.

Talið er að stúlkubarnið hafi verið í ruslafötunni í um klukkustund áður en það fannst. Að sögn lögreglu hafði hún ekki fengið neina umönnun eða mat frá því hún fæddist. Nágranni konunnar fann barnið eftir að hafa haldið að köttur væri að mjálma í ruslafötunni. Barnið var um leið flutt á spítala, þar sem það dvelur enn.

Í Utah er leyfilegt fyrir mæður að skilja nýfædd börn eftir á spítölum, án afleiðinga. Fjölmörg börn eru skilin eftir í þessum tilgangi á ári hverju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert