Viðbúnaðarstig hækkað í Bretlandi

AFP

Viðbúnaðarstig í Bretlandi vegna hryðjuverkahættu var hækkað í dag úr talsverðri hættu yfir í mjög mikla hættu. Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, greindi frá þessu. Hún segir að vegna stríðsátakanna í Írak og í Sýrlandi hafi bresk stjórnvöld ákveðið að hækka viðbúnaðarstigið.

Þetta þýðir að stjórnvöld telja líkurnar á hryðjuverkaárás mjög miklar. May segir hins vegar að ekkert bendi til þess að slík árás sé yfirvofandi. 

Viðbúnaðarstigin vegna mögulegrar hryðjuverkahættu eru fimm og með breytingunni er viðbúnaðurinn í næst efsta þrepi, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið setningu nýrra laga sem muni auðvelda yfirvöldum að taka vegabréf af einstaklingum sem hyggjast ferðast til annarra landa til að berjast.  

BBC bendir hins vegar á, að innanríkisráðherrann hafi vald til að taka vegabréf af fólki sé það í almannaþágu að stöðva för viðkomandi. 

Þessari valdheimild hefur verið beitt í 23 skipti frá því í apríl í fyrra. Yfirvöld segja að þeir sem hafa verið stöðvaðir hafi ætlað að ferðast til annars lands í glæpsamlegum tilgangi eða til að vinna hryðjuverk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert