Reiði vegna plássleysis í háloftunum

AFP

Bandarísk farþegaflugvél neyddist til að lenda í Boston á miðvikudag eftir að rifrildi braust út á milli farþega vegna plássleysis. Þetta er í annað sinn í vikunni sem svipað atvik á sér stað í háloftunum.

Farþegavél American Airlines var að fljúga frá Miami í Bandaríkjunum til Parísar í Frakklandi þegar rifrildi braust út milli karls og konu, en maðurinn var ósáttur við það að konan, sem sat fyrir framan hann, skyldi halla sæti sínu aftur. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lögreglumenn, sem voru um borð í vélinni, náðu að skakka leikinn. 

Maðurinn, hinn 61 árs gamli Edmund Alexandre frá París, var handtekinn við komuna til Boston. Hann hefur verið ákærður fyrir að trufla störf flugáhafnar í miðju flugi.

Alexandre er sagður hafa brugðist reiður við þegar konan reyndi að halla sætinu. Þegar einn úr áhöfn vélarinnar reyndi að róa Alexandre varð hann enn reiðari og greip í handlegg mannsins.

Svipað atvik átti sér stað sl. sunnudag, en þá varð vél United Airlines, sem var að fljúga frá Newark til Denver, að lenda í Chicago. Í því flugi hafði farþegi sett sérstakan búnað, svokallaðan Knee-Defender, á sætið fyrir framan sig, en búnaðurinn kemur í veg fyrir að hægt sé að halla sætinu aftur. Kona sem sat í sætinu var ekki sátt og skvetti vatni yfir manninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert