Vísaði ábyrgðinni á Hamas

Mahmud Abbas, forseti Palestínu.
Mahmud Abbas, forseti Palestínu. AFP

Forseti Palestínu, Mahmud Abbas, sakaði í gær Hamas-samtökin um að bera ábyrgð á því að átökin við Ísraelsmenn á Gaza-ströndinni drógust á langinn. Engin þörf hafi verið á því en það hafi hins vegar kostað hundruð Palestínumanna lífið. Fram kemur á fréttavefnum USA Today að ummæli Abbas skapi efasemdir um mögulega þjóðstjórn Palestínumanna í framtíðinni.

Ummæli Abbas féllu nokkrum dögum eftir að Ísraelsmenn og Hamas sömdu um vopnahlé eftir átök sem stóðu yfir meira eða minna í 50 daga. Rúmlega 2.100 Palestínumenn létu lífið í átökunum og þar á meðal hundruð óbreyttra borgara. 71 Ísraelsmaður lét lífið og þar af sex óbreyttir borgarar. Stjórnvöld í Egyptalandi gerðu nokkrar tilraunir til að koma á vopnahléi á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Hamas samþykkti að lokum vopnahlé á hliðstæðum forsendum og lagt var til fljótlega eftir að átökin hófust. 

„Það hefði verið mögulegt að komast hjá þessu öllu, 2 þúsund fórnarlömb, 10 þúsund særðir, 50 þúsund hús eyðilögð,“ sagði Abbas í sjónvarpsávarpi í gær. Hann sagði að Hamas hefði farið fram á það að orðið yrði við kröfum þeirra áður en bundinn væri endir á átökin sem hefði aðeins orðið til þess að draga þau á langinn.

Frétt USA Today

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert