Sex látnir í París

Tala látinna hefur farið hækkandi í úthverfi Parísar þar sem fjölbýlishús jafnaðist að hluta til við jörðu í sprengingu. Að sögn yfirvalda hafa sex látist. Ellefu slösðust, þar af fjórir alvarlega.

Björgunarlið á vettvangi fundu fyrr í dag lík barns, sem er talið hafa verið um 10 ára, unglingspilts og tveggja kvenna í húsarústunum, sem er í úthverfinu Rosny-sous-Bois í norðausturhluta Parísar, höfuðborgar Frakklands.

Tvö lík til viðbótar fundust seint í kvöld en tveggja er enn saknað að sögn Claude Capillion, borgarstjóra Parísar. Slökkviliðsmenn hafa verið að leita í rústunum í allan dag, en atvikið átti sér stað um kl. 7 að frönskum tíma (kl. 5 að íslenskum tíma).

Frumrannsókn þykir benda til þess að sprengin hafi orðið í húsinu vegna gasleka, en íbúar í hverfinu hafa greint fjölmiðlum frá þeim óhugnaði sem greip þá. Hús skulfu og margir eru með suð í eyrum, en slíkur var hávaðinn. 

Gaetan de Raucourt, slökkviliðsstjóri Parísar, segir að menn bindi enn vonir við að fólk finnist á lífi í rústunum.

Yfirmaður almannavarna segir leit muni standa yfir næsta sólarhringinn, hið minnsta. Menn þurfa hins vegar að fara að öllum með gát enda hætt við að það sem enn stendur eftir af húsinu falli saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert