Mynd af börnum veldur usla

Þessi mynd hefur vakið hörð viðbrögð í Frakklandi
Þessi mynd hefur vakið hörð viðbrögð í Frakklandi Facebooksíða franska menntamálaráðuneytisins.

Frönsk stjórnvöld hafa þurft að eyða ummælum um mynd sem sett var inn á vef menntamálaráðuneytisins í upphafi skólaárs. Ástæðan er kynþáttaníð sem fólk hefur sett inn vegna litarháttar barnanna á myndinni.

Það er erfit að ímynda sér að mynd af átta heilbrigðum og velklæddum börnum geti vakið jafnmikla úlfúð og raun ber vitni á Facebooksíðu franska menntamálaráðuneytisins.

Á myndinni eru flest barnanna dökk á hörund og einungis eitt þeirra er mjög fölt á lit. Myndin hefur sett af stað flóð ummæla - bæði sem innihalda rasisma og önnur sem innihalda níð um þá sem þeir saka um rasisma.

Er svo komið að ráðuneytið hefur þurft að benda fólki á að síðunni sé ætlað að birta jákvæðar og gagnlegar upplýsingar um skólamál ekki hatursorðræðu.

Meðal þeirra sem tjá sig er Mike Plusultra sem segist óttast flóð innflytjenda. Hann segist ekki telja að myndin sýni sanna mynd af frönskum skólum. „Hvers vegna í fjandanum er þessi hvíti enn þarna? Ó ég hef heyrt að hann er frá Kosovo.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert