Starfsmaður skattstofu skotinn

Skattstofan í Schleswig-Holstein
Skattstofan í Schleswig-Holstein DPA

Starfsmaður á skattstofu í bænum Rendsburg í Þýskalandi lést á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn á skattstofunni í morgun. Þetta kemur fram á fréttaveitunni The Local.

Árásarmaðurinn, skattaráðgjafi á sextugsaldri, sem var þegar í deilum við skattayfirvöld, kom á skattstofuna um klukkan 10 í morgun og bað starfsmann um að fá að tala við framkvæmdastjórann.

Í miðju samtali við starfsmanninn tók árásarmaðurinn byssu úr vasa sínum og skaut manninn, sem lést síðar af sárum sínum á spítala. Ekki er vitað hversu mörgum skotum var hleypt af.

Skattstofunni var lokað og hafa rannsóknarlögreglumenn unnið að rannsókn málsins í dag.

Árásarmaðurinn er enn í haldi, en hann gekkst undir læknisskoðun vegna smávægilegra meiðsla.

Fjármálaráðherra í Schleswig-Holstein, Monika Heinold, heimsótti vettvang glæpsins í dag. „Þetta hefur mikil áhrif á okkur í ríkisstjórninni,“ sagði Heinold blaðamönnum.

Nokkur tilvik hafa komið upp á síðustu árum þar sem ofbeldi er beitt gegn ríkisstarfsmönnum í Þýskalandi, en í örfáum atvikum hefur fólk verið drepið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert