Sátu saklausir inni í 30 ár

AFP

Tveir hálfbræður sem hafa setið í þrjá áratugi í fangelsi, þar af annar á dauðadeild, hafa verið látnir lausir eftir að lífsýni sýna að þeir voru saklausir.

Bræðurnir, Henry McCollum og Leon Brown, eru báðir þroskahamlaðir.  Þeir voru árið 1984 dæmdir fyrir að hafa nauðgað og myrt 11 ára gamla stúlku í Norður-Karólínu. Þeir eru nú 50 og 46 ára en sá fyrrnefndi glímir við þroskahömlun og er með vitsmunaþroska á við níu ára gamalt barn.

Ekki er langt síðan að DNA rannsókn leiddi í ljós að lífsýni sem fannst á staðnum þar sem glæpurinn var framinn var úr öðrum manni. Sá hinn sami situr í fangelsi fyrir svipaðan glæp sem hann framdi einungis mánuði eftir morðið á litlu stúlkunni.

Rannsókn hefur leitt í ljós að það er ekkert sem bendlar bræðurna við glæpinn en þeir voru báðir dæmdir til dauða á sínum tíma fyrir hann. 

Lík Sabrinu Buie fannst árið 1983 nálægt bænum Red Springs í Norður-Karólínu. Henni hafði verið nauðgað áður en hún var myrt.

McCollum og Brown, sem voru 19 og 15 ára á þessum tíma, voru handteknir af lögreglu nokkrum vikum síðar þrátt fyrir að ekkert hafi bent til þess að þeir hafi verið á staðnum þar sem stúlkan fannst.

McCollum játaði eftir fimm klukkutíma yfirheyrslur af lögreglu en hvorki lögmaður né einhver úr fjölskyldu hans var viðstaddur yfirheyrslurnar. Yngri bróðir hans skrifaði einnig undir játningu sem lögreglan skrifaði fyrir hann. Þeir neituðu síðar sök og sögðu að játningarnar hafi verið þvingaðar fram. En þrátt fyrir þetta voru þeir dæmdir til dauða fyrir að hafa nauðgað og myrt stúlkuna.

Refsingu Browns var síðar breytt í lífstíðarfangelsi fyrir nauðgun en McCollum var aftur á móti á dauðadeild í þrjátíu ár.

Lífsýni úr Roscoe Artis, 74 ára, sem bjó skammt frá akrinum þar sem stúlkan fannst,   fundust á sígarettustubb sem fannst skammt frá líkinu benda til þess að hann hafi verið á staðnum en hann var ekki grunaður um að hafa komið að glæpnum. Hann var aftur á móti fundinn sekur um nauðgun og morð á annarri stúlku við svipaðar aðstæður innan við mánuði eftir morðið á Sarbrinu Buie.

Umfjöllun New York Times

Umfjöllun BBC

Umfjöllun Time

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert