Vill áframhaldandi stækkun ESB

Federica Mogherini, verðandi utanríkismálastjóri ESB.
Federica Mogherini, verðandi utanríkismálastjóri ESB. AFP

Verðandi utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Federica Mogherini, lýsti því yfir í gær á fundi með utanríkismálanefnd Evrópuþingsins að hún væri hlynnt því að áfram yrði lögð áhersla á stækkun sambandsins. Ræddi hún einkum í því sambandi ríki á vestanverðum Balkanskaga sem ýmist hafa stöðu umsóknarríkis eða mögulegs umsóknarríkis. Ísland er á meðal umsóknarríkja að ESB þar sem umsókn landsins hefur ekki verið afturkölluð.

Fram kemur í erlendum fjölmiðlum að ummæli Mogherini þyki ganga þvert á það sjónarmið Jean-Claude Juncker, verðandi forseta framkvæmdastjórnar ESB, að ekki yrði af frekari stækkun sambandsins í það minnsta næstu fimm árin. Juncker lýsti því sjónarmiði sínu í sumar í kjölfar þess að samþykkt var á vettvangi ESB að hann tæki við embættinu. Þess í stað sagði Juncker að leggja ætti áherslu á að treysta í sessi samruna þeirra ríkja sem þegar mynduðu ESB. 

Haft var eftir Mogherini á fréttavefnum Euobserver.com í gær að áframhaldandi áhersla á stækkun ESB væri að mati ríkisstjórnar Ítalíu, sem fer með forsætið innan sambandsins fram að næstu áramótum, ekki aðeins vera í þágu umsóknarríkja heldur skipti það einnig máli fyrir stöðugleika í álfunni, öryggi og efnahagslega velmegun. Mogherini er núverandi utanríkisráðherra Ítalíu en tekur við embætti utanríkismálastjóra ESB í byrjun nóvember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert