Hákarlar drepa frekar karlmenn

Hákarlar.
Hákarlar. Ómar Óskarsson

Karlar eru níu sinnum líklegri en konur til að verða fyrir banvænum hákarlaárásum. Þetta kemur fram í rannsókn Daryl McPhee við Bond-háskólann í Queensland í Ástralíu. Karlar verða fyrir 84% allra tilefnislausra hákarlsárása en það sem vakti þó meiri furðu var að 89% þeirra sem verða fyrir banvænum árásum eru karlmenn. Konur eru því hlutfallslega líklegri til að lifa af slíkar árásir. McPhee býr ekki yfir haldbærri útskýringu hví svo sé en segir þó hugsanlegt að karlar séu almennt áhættusæknari en konur og því mögulega oftar í hættulegum aðstæðum gagnvart hákörlum.  

Í rannsókninni kemur einnig fram að brimbrettakappar séu líklegastir til að verða fyrir árásum hákarla, þar á eftir koma sundmenn og svo þeir sem stunda köfun. Í ljós kemur að aðeins 15,8% brimbrettakappa sem verða fyrir árás láta lífið á meðan 34,6% kafara deyja í slíkum árásum. Þetta segir McPhee meðal annars vera vegna þess að kafarar séu frekar bitnir í höfuð og búk á meðan brimbrettakappar séu bitnir í útlimi. Auk þess séu kafarar oftar dregnir niður í hyldýpið enda þegar undir yfirborðinu. McPhee tekur það þó sérstaklega fram að hákarlahræðsla sé óþörf enda séu árásir afar sjaldgæfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert