Viðræðum haldið áfram við umsóknarríki

Nýr stækkunarstjóri Evrópusambandsins mun leggja áherslu á að halda viðræðum við umsóknarríki að ESB áfram án þess þó að þeim verði veitt aðild næstu fimm árin. Þetta kom fram við kynningu á nýrri framkvæmdastjórn ESB í Brussel í dag. Þannig var yfirlýsing Jean-Clau­de Juncker, forseta framkvæmdastjórnarinnar, frá því í júlí staðfest.

Juncker flutti ræðu 15. júlí í Evr­ópuþing­inu þar sem hann lýsti fyr­ir­huguðum áhersl­um í for­setatíð sinni. Þær áherslur voru staðfestar í dag þegar hann kynnti til leiks það sem hann sagði „sigurlið sitt“. Nýr stækkunarstjóri sambandsins, Johannes Hahn, mun fylgja þeim áherslum sem Juncker setti fram um að sambandið taki ekki inn ný aðildarríki á næstu fimm árum, en því til viðbótar kom fram við kynninguna að viðræður við umsóknarríki myndu halda áfram.

„Í dag kynni ég liðið sem mun koma Evrópu aftur á veg atvinnutækifæra og vaxtar,“ sagði Juncker í ræðu sinni. „Það sem ég hef fram að færa verður árangursrík og öflug framkvæmdastjórn, sem hefur það eitt markmið að hefja Evrópu til vegs og virðingar á ný.“

Framkvæmdastjórnin tekur til starfa í nóvember en áður en kemur að því þarf Evrópuþingið að staðfesta hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert