Taka ekki þátt í loftárásum

Bretar munu ekki taka þátt í loftárásum Bandaríkjanna á herbúðir Ríkis íslams í Sýrlandi. Þetta staðfesti utanríkisráðherra Bretlands, Philip Hammond, í dag. Hann sagði þó að hugsanlega myndi Bretland taka þátt í svipuðum aðgerðum í Írak.

„Það er alveg ljóst að Bretland mun ekki taka þátt í loftárásum á Sýrland,“ sagði Hammond í dag í Berlín. „Þetta var rætt á þinginu í fyrra og við munum ekki ræða það aftur.“

Hammond lagði þó áherslu á að breskir ráðamenn styðji bandarísk stjórnvöld og forseta Bandaríkjanna, Barack Obama. 

Hammond, sem talaði á blaðamannafundinum í Berlín ásamt utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, sagði einnig að nú þyrfti að rengja þá staðhæfingu að ríki Íslams sé óstöðvandi.

„Við þurfum að halda aftur af þeim. Við þurfum að ögra lögmæti þeirra í augum róttækra múslíma og það ferli er þegar hafið,“ sagði Hammond en margir íslamskir fræðimenn hafa talað opinberlega gegn hugmyndafræði ríki Íslams.

„Við þurfum einnig að ögra þeim hernaðarlega séð. Við skoðuðum áætlun Bandaríkjanna vandlega og við munum skoða hvernig Bretland getur hjálpað á sem bestan hátt.“

Breski utanríkisráðherrann Philip Hammond á blaðamannafundi í dag.
Breski utanríkisráðherrann Philip Hammond á blaðamannafundi í dag. AFP
Hammond ásamt utanríkisráðherra Þýskalands.
Hammond ásamt utanríkisráðherra Þýskalands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert