Berjast fyrir kynsystur sínar

Konur sem berjast með PKK í Makhmur.
Konur sem berjast með PKK í Makhmur. AFP

Tekoshin stendur á fjallstoppi í norður Írak. Hún er með riffil á bakinu og handsprengju fasta við beltið sitt. Hún er hluti af hreyfingu kvenna sem berst nú gegn skæruliðum Ríkis íslam í Írak.

Að sögn Tekoshin berjast konurnar til þess að „frelsa aðrar konur“. Þær berjast með hersveit Kúrda, PKK, og er aðalmarkmið þeirra að ná völdum á fjallinu Makhmur sem hefur verið yfirráðasvæði skæruliða ríki Íslams síðustu vikur. Ástæða þess að konurnar kjósa að berjast er að sögn Tekoshin meðferð skæruliðanna á konum og segir hún hópinn starfa „gegn frelsi kvenna.“

„Þeir leyfa konum ekki að fara á markaðinn og neyða þær til þess að bera slæður. Barátta okkar snýst um að vernda konur frá þeim og þessum hugsunarhætti,“ segir Tekoshin.

Hrakti Ríki íslams úr þorpinu

Um 50 konur berjast með PKK sem hóf uppreisn gegn Tyrklandi 1984 og krafðist sjálfræðis. Hópurinn hefur í gegnum tíðina verið flokkaður sem hryðjuverkahópur en hóf friðarviðræður árið 2012. Konur hafa barist með PKK í mörg ár.

PKK hefur nú yfirráð yfir fjallabænum Makhmur sem áður var svæði Ríkis íslams.

 „Við skiptum okkur yfirleitt í hópa, fjórar konur í hverjum hóp. Ég stjórna einum þannig hóp,“ útskýrir Tekoshin fyrir blaðamanni. Hún er 27 ára gömul og klæðist hefðbundnum kúrdískum klæðnaði sem sést yfirleitt á karlmönnum. 

„En þegar við berjumst, skiptast hóparnir upp og við dreifum okkur,“ segir Tekoshin. 

Ekki vinsælt að gifta sig

Er blaðamaður spurði Tekoshin hvort hún væri gift hló hún. „Flestar okkar eru ekki giftar. Ég byrjaði að berjast með PKK þegar ég var 14 ára gömul.“ Hún segir að PKK banni ekki liðsmönnum sínum að giftast en það sé ekki vinsælt.

Tekoshin finnst skemmtilegt að heyra að skæruliðunum hafi brugðið er þeir sáu konur berjast með PKK. „Ég held að þeir séu hræddari við okkur en mennina,“ segir hún og bætir við að hún haldi að þeir trúi því að þeir fari til helvítis ef að kona drepi  þá.

Hún segir að henni finnist best að berjast með Kalashnikov árásarriffli en Saria, sem er líka hluti af hersveitinni,finnst þægilegast að berjast með vélbyssum og leyniskyttu-rifflum. 

Saria, sem er 18 ára, ólst upp í norðurhluta Sýrlands og berjast bróðir hennar og systir gegn ríki Íslams þar. Jafnframt voru báðir foreldar hennar í PKK.

„Þegar ég var barn hélt ég ekki að ég yrði bardagakona. En nú hef ég komist að því hversu mikið þjóð mín þarfnast mín og ég valdi þetta,“ segir hún. „Það er mikilvægt fyrir okkur að finna okkar stað í stríðinu, samhliða karlmönnum.“

Á fjallinu lifa liðsmenn PKK sameignarlífi. Yfirleitt skiptast þau á að elda en þar sem að stríð stendur yfir hafa sjálfboðaliðar frá nágrannaborginni Arbil tekið að sér að gefa þeim að borða. 

Shimal, sem er 26 ára segir að baráttan gegn ríki Íslam snúist jafn mikið um sýna kynsystrum sínum samstöðu sem er fórnarlömb samtakanna og um að berjast fyrir kúrdísku þjóðina. „Ríki íslam breytir konum í þræla,“ segir hún. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert