Spiluðu fyrir Skotland

Söngvari Franz Ferdinand Alex Kapranos á tónleikum í sumar.
Söngvari Franz Ferdinand Alex Kapranos á tónleikum í sumar. AFP

Nokkrar af frægustu hljómsveitum Skotlands, eins og Franz Ferdinand og Mogwai spiluðu á sérstökum tónleikum í kvöld til þess að hvetja fólk til að kjósa með sjálfstæði Skotlands. Samkvæmt skoðanakönnunum er mjótt á munum en kosið verður á fimmtudaginn.

Uppselt var á tónleikana en þeir hétu „Kvöld fyrir Skotland“ og voru haldnir í Edinborg. 

Salurinn rúmar um 3000 manns. Aðrir tónlistarmenn sem tóku þátt voru Frightened Rabbit og söngvararnir úr Deacon Blue, Ricky Ross og Lorraine McIntosh.

Mikil stemning myndaðist fyrir utan tónleikahöllina áður en tónleikarnir hófust. Hundruðir manns á öllum aldri veifuðu fánum Skotlands, með barmmerki þar sem á stóð einfaldlega „Já.“

Calum Forbes, stuðningsmaður sjálfstæðis og gestur á tónleikunum sagði í samtali við AFP að fólk væri spennt. „Mér finnst eins og stuðningsmenn sjálfstæðis séu hressari en ég vil ekki vera of sjálfumglaður,“ sagði Forbes sem er 22 ára og nýlega útskrifaður úr háskóla.

Angela Crawley, sem starfar sem sjálfboðaliði fyrir stuðningsmenn sjálfstæðis dreifði bæklingum og sagði að fólk væri jákvætt. „Þeir hafa verið að stuðla að félagslegu jafnrétti og sanngirni en ég held að þeir sem séu á móti sjálfstæði hafi verið neikvæðari.“

Í tilkynningu frá hljómsveitinni Mogwai sagði að þetta væru spennandi tímar fyrir Skotland. „Það er frábært að vera hluti af þessum viðburði með öðrum skoskum tónlistarmönnum,“ sagði meðal annars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert