Ákærð fyrir morð á nauðgara sínum

Norma Esparza hefur játað aðild sína að morði Gonzalo Ramirez sem hún segir hafa nauðgað sér fyrir tæpum tuttugu árum. Esparza er ein af fjórum grunuðum um að hafa myrt Ramirez árið 1995 en hann var stunginn ítrekað og líkami hans saxaður niður í búta og þeim dreift um götur Orange County í Kaliforníu.

Esparza er prófessor í sálfræði við Webster háskólann í Sviss og var handtekin fyrir tveimur árum þegar hún sótti ráðstefnu í Bandaríkjunum. Esparza var fyrst ákærð fyrir morð af yfirlögðu ráði en hefur nú játað fyrir manndráp af gáleysi og samþykkt að bera vitni gegn hinum þremur sem hafa verið ákværðir fyrir morðið á Ramirez.

Ber vitni gegn fyrrverandi kærasta sínum

Meðal þeirra sem lögreglan telur að hafa átt aðild að morðinu er fyrrverandi kærasti Esparza, Gianni Van, og kemur Esparza til með að vitna gegn honum og öðrum við réttarhöldin á næsta ári.

Esparza var tvítug þegar nauðgunin á að hafa átt sér stað og var of hrædd að eigin sögn til þess að kæra nauðgunina til lögreglunnar. Hún á að hafa sagt þáverandi kærasta sínum, Van, frá nauðguninni og bent honum á Ramirez á bar í Kaliforníu þaðan sem hann var tekinn óviljugur og seinna myrtur.

Talið er að Esparza fái sex ára fangelsisdóm en hún situr nú í fangelsi og bíður réttarhaldanna.

Frétt Mirror

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert