Ekki sjóslys heldur fjöldamorð

AFP

Óttast er að 500 ólöglegir innflytjendur hafi drukknað eftir að skip þeirra sökk eftir árekstur við skip smyglara skammt frá Möltu. Samkvæmt upplýsingum frá IOM, þeirri stofnun Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með flótta fólks í leit að betri lífskjörum, er talið að þetta sé mesti mannskaði á sjó í einhver ár.

Skelfilegar lýsingar eru farnar að berast af sjóslysinu og samkvæmt upplýsingum frá IOM er nú rannsakað hvort það sé rétt sem þeir sem lifðu slysið af segja - að smyglararnir, sem smygla fólki ólöglega til Evrópu gegn háu gjaldi, hafi siglt viljandi á skip flóttafólksins. Segir í yfirlýsingu IOM að ef það reynist rétt sé þetta ekki slys heldur fjöldamorð framin af glæpamönnum sem bera enga virðingu fyrir mannslífum. 

Tveir Palestínumenn sem var bjargað af áhöfn togara á fimmtudag eftir að hafa verið í sjónum á annan sólarhring sögðu starfsmönnum IOS að um 500 farþegar hefðu verið á skipinu sem var sökkt viljandi af smyglurunum.

Að þeirra sögn voru Sýrlendingar, Palestínumenn, Egyptar og súdanskir flóttamenn um borð í skipinu sem lagði af stað frá Damietta í Egyptalandi hinn 6. september. Var fólkið neytt til þess að fara á milli skipa nokkrum sinnum á leiðinni til Evrópu. Smyglararnir, sem voru á öðru skipi, fyrirskipuðu síðan fólkinu að fara um borð í lítið skip sem fólkið óttaðist að myndi ekki rúma allan hópinn. Þegar fólkið neitaði að fara um borð reiddust smyglararnir svo að þeir stýrðu skipi sínu ítrekað á skip flóttafólksins þar til það sökk. 

Flavio Di Giacomo, talsmaður IOM á Ítalíu, segir að níu öðrum hafi verið bjargað en talið er að hinir 500 hafi farist.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert