Fjarlægðu æxli úr gullfiski

facebook.com/lortsmithhospital

Milljónir fiska eru flakaðir á hverjum degi en gullfiskar eru hinsvegar ekki skornir upp á hverjum degi, í það minnsta ekki í læknisfræðilegum tilgangi.

Gullfiskurinn George gekkst í síðustu viku undir 45 mínútna aðgerð á Lort Smith dýraspítalanum í Melbourne, Ástralíu. Í aðgerðinni fjarlægðu dýralæknar æxli sem ógnaði lífi George. Til þess að deyfa hann fyrir aðgerðina var George látinn synda í vatni sem blandað hafði verið í deyfiefni. Á meðan að aðgerðinni stóð var hann með túpu í munninum með vatni og deyfilyfjum svo vatnið rann yfir tálkin á honum. Eftir aðgerðina var hann settur í hreint vatn og honum gefin verkjalyf og sýklalyf og aðeins fáeinum mínútum síðar var hann orðinn sprækur og farinn að synda um.

Eigendur George er sýnilega afar umhugað um velferð hans. Gullfiskurinn er tíu ára gamall en mun geta lifað í allt að 20 ár í viðbót haldi hann heilsu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert