„Hann komst upp með morð

Spretthlauparinn Oscar Pistorius var fundinn sekur um manndráp af gáleysi eftir að hafa valdið dauða kærustu sinnar, módelsins Reevu Steenkamp. 

Dómarinn, Thokozile Masipa, sagði við dómsuppkvaðninguna að Pistorius hefði sýnt af sér vítavert gáleysi er hann skaut á baðherbergishurð íbúðar sinnar á valentínusardag 2013 með þeim afleiðingum að Steenkamp lést af völdum skotsáranna. Taldi Pistorius að innbrotsþjófur væri inni á baðherberginu en ekki Steenkamp.

Masipa færði rök fyrir dómnum með þeim hætti að saksóknara hefði ekki tekist að sanna að Pistorius hefði ætlað sér að myrða Steenkamp og því var hann ekki dæmdur fyrir morð að yfirlögðu ráði.

Á erfitt með að skilja rökin á bak við úrskurðinn

Adam Steenkamp, hálfbróðir Reevu, telur Pistorius hafa komist upp með morðið á systur sinni. „Í hjarta mínu veit ég að hann komst upp með það. Hann komst upp með morð,“ sagði Steenkamp við fréttastofu Mail on Sunday.

Pistorius er laus gegn tryggingu núna en á yfir höfði sér allt að fimmtán ára dóm í fangelsi. Refsingin verður kveðin upp 13. október.

Adam Steenkamp gagnrýnir úrskurð dómarans Masipa og segir í viðtali við Mail on Sunday að hann eigi erfitt með að skilja rökin á bak við þá ákvörðun að sýkna einhvern af morði sem skýtur fjórum skotum á dyr lítils baðherbergis. „Það er ekki gjörð einhvers sem ætlar sér ekki að drepa.“

Reyna að vera ekki of reið

Foreldrar Reevu og aðrir meðlimir fjölskyldu Reevu hafa mótmælt úrskurði dómarans í fjölmiðlum síðan dómurinn var kveðinn upp, föstudaginn 12. september.

Adam Steenkamp segir fjölskylduna ósátta við dóminn en þau reyni að vera ekki of reið vegna hans. „Við leitum að því jákvæða í þessum efnum. Hvað getur gert hlutina bærilegri í stað þess að horfa á það sem gerir þá verri.“

Frétt Indepentent 

Pistorius var fundinn sekur um manndráp af gáleysi. Refsing hans …
Pistorius var fundinn sekur um manndráp af gáleysi. Refsing hans verður kveðin upp 13. október og á hann yfir höfuð sér allt að fimmtán ára fangelsisdóm. AFP
Oscar Pistorius og Reeva Steenkamp
Oscar Pistorius og Reeva Steenkamp AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert