Þrír yfirheyrðir í tengslum við morðin

Lík ferðamannanna flutt
Lík ferðamannanna flutt AFP

Taílensk lögreglan yfirheyrði þrjá menn frá Búrma í tengslum við morð á tveimur breskum ferðamönnum á eyjunni Koh Tao í dag. Lík þeirra verða flutt til höfuðborgarinnar í dag þar sem þau verða krufin.

David Miller, 24 ára og Hannah Witheridge, 23 ára, fundust látin á ströndinni skammt frá gistikofa á eyjunni sem er vinsæll ferðamannastaður. Töluverðir áverkar voru á líkunum og þau voru án klæða. Blóðugt hnúajárn fannst í um 35 metra fjarlægð frá líkunum í gær.

Samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar frá lögreglu eru þremenningarnir farandverkamenn og eru þeir í haldi lögreglu í tengslum við rannsóknina.

Breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að lögregla leiti nú Breta sem var á ferðalagi með Miller í tengslum við morðin. Lögregla vildi ekki staðfesta hvort það væri rétt að lögregla hafi fundið iPhone og blóðugar gallabuxur í herbergi þremenninganna. Ekki er óalgengt að lögregla í Taílandi skelli skuldinni á farandverkamenn frá Kambódíu eða Búrma þegar glæpir eru framdir í Taílandi, segir í frétt AFP. Farandverkamenn búa oft við ömurlegar aðstæður í konungsríkinu og fá lítið sem ekkert greitt fyrir vinnu sína og tilheyra neðsta þrepi þjóðfélagsstigans.

Eyjan Koh Tao er þekkt fyrir hvítar og fallegar baðstrendur og fagurblátt haf. Mjög vinsælt er meðal kafara að koma þangað en þrátt fyrir það eru ferðamenn ekki eins margir þar og á nágrannaeyjunni Koh Phangan sem er afar vinsæll áfangastaður bakpokaferðalanga sem taka fullan þátt í því næturlífi sem eyjan hefur upp á að bjóða.

Yfirvöld í Taílandi ýja nú að því að bresku ferðamennirnir hafi tekið fullan þátt í villtu líferni í heimsókn sinni. Lögregla hefur greint frá því að þau hafi verið í partýi á bar skömmu fyrir andlát sitt. 

Breskir ferðamenn myrtir í Taílandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert