Falsfrétt um nauðlendingu á Íslandi

AFP

Malaysia Airlines fordæmdi í dag fréttaflutning World News Daily Report sem í gær greindi frá því að Boeing 777 farþegaþota félagsins hefði þurft að nauðlenda á Íslandi eftir að hafa flogið yfir eldgosið í Holuhrauni. Flugfélagið hvatti stjórnvöld í Malasíu til að loka fyrir vef að síðu spaugstofunnar.

Fréttir World News Daily Report eru eingöngu háð en forsvarsmönnum Malaysia Airlines þótti grínið miður fyndið. Skiljanlega kannski eftir að hafa í ár lent í miklum hrakförum. Fyrst hvarf MH370 með 239 farþega og áhöfn um borð. Þá var MH17 skotin niður yfir Úkraínu með 298 um borð.

Í spaugi World News Daily Report um nauðlendinguna á Íslandi kom fram að farþegaþotunni hefði verið flogið beint yfir gosstöðvarnar, þrátt fyrir flugbann þar, með þeim afleiðingum að stjórnkerfi hennar skemmdust. Vélin, MH131, hafi verið á leið frá París til New York.

Malaysia Airlines hyggst leita réttar síns gegn spaugstofunni og hvetur flugfélagið almenning til að sniðganga vef spaugstofunnar. Þá er tekið fram í tilkynningu frá flugfélaginu að MH131 fljúgi til og frá Kuala Lumpur og Auckland í Nýja-Sjálandi. Þá fljúgi engin vél frá París til New York.

Frétt World News Daily Report.
Frétt World News Daily Report.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert